Nadía Sif Líndal og Lára Clausen, stúlkurnar tvær sem heimsóttu ensku landsliðsmennina Phil Foden og Mason Greenwood á hótel þar sem enska liðið dvaldi um helgina, hafa fengið að finna fyrir því á samfélagsmiðlum síðastliðinn sólarhringinn. Hafa þær verið kallaðar öllum illum nöfnum og athugasemdakerfið á instagramsíðum þeirra fyllst af athugasemdum frá erlendum aðilum.
Nadíu og Láru hefur verið kennt um brottrekstur þeirra Fodens og Greenwoods úr landsliðinu og þær verið kallaðar skækjur, hórur og hjónadjöflar. Foden á kærustu og saman eiga þau son.
Um tíma hrönnuðust inn fylgjendur á instagramsíður þeirra beggja og í dag hefur fylgjendahópur Nadíu tvöfaldast á samfélagsmiðlinum.
Fjallað hefur verið um þær í breskum fjölmiðlum og á vefmiðli The Sun má meðal annars finna grein um Nadíu og hver hún er.
Margir hafa komið konunum til varnar á samfélagsmiðlum og bent á að ósanngjarnt sé að skella skuldinni á þær tvær. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, bendir á að það hafi vissulega verið heimskulegt af þeim með tilliti til sóttvarna.
„Tvær ungar konur (ekki opinberar persónur) hitta tvo fótboltamenn á sama aldri. Þetta var vissulega heimskulegt, vegna reglna um sóttvarnir, en getum við verið sammála um það að það sé algjör óþarfi að fara hamförum á samfélagsmiðlum með slíkum hroða að það mun augljóslega valda þessum ungu konum nokkrum skaða? Rétt upp hönd þið sem aldrei hafið gert neitt heimskulegt. Rétt upp hönd þið sem þakkið fyrir það á hverjum degi að samfélagsmiðlar voru ekki til þegar þið voruð á aldrinum 15-25. Eigum við kannski að gefa þeim smá séns?“ skrifar Helga Vala á Facebook.
Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé ráðgjafi tekur undir með Helgu Völu í færslu sinni á Facebook.
Tónlistarkonan Elísabet Ormslev tekur einnig upp hanskann fyrir Nadíu og Láru og segir þetta vissulega hafa verið dómgreindarleysi hjá stelpunum en að hún skuli kaupa kippu af bjór handa þeim sem gerðu ekki mistök og skitu upp á bak einhvern tímann fyrir eða um tvítugt.
Það er embarrassing hvað fullorðið fólk leyfir sér að kommenta á netinu. Þetta var 100% dómgreindarleysi hjá þessum stelpum, algjörlega, en ég skal kaupa kippu af bjór handa þeim sem gerðu ekki mistök og skitu uppá bak einhvern tímann fyrir eða um tvítugt.
— Elísabet Ormslev (@elisabet_music) September 7, 2020
Getum við án gríns hætt að gera konur ábyrgar fyrir hlutum sem þær bera ekki ábyrgð á? Þær voru ekki í sóttkví, þær eiga ekki maka og barn og þær voru ekki í vinnuferð og þær eru ekki í landsliði. Next.
— Steinunn Bragadóttir (@steinunnbragad) September 8, 2020
Fólk ætti kannski að lesa orð Mason Greenwood og hætta að smána þessar stúlkur? pic.twitter.com/6dAL98hL9w
— Katrín Atladóttir (@katrinat) September 8, 2020