Upplifa alla liti lífsins

„Hér ríkir kraftur og gleði og við erum heldur betur …
„Hér ríkir kraftur og gleði og við erum heldur betur tilbúin til að taka á móti gestum. Okkar aðalhlutverk er að halda utan um hug og hjörtu landsmanna og það ætlum við svo sannarlega að gera,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir borgarleikhússtjóri. mbl.is/Árni Sæberg

„Í raun mætti nefna kom­andi leik­ár 2020-2021+ því það er allt á hreyf­ingu vegna kófs­ins og við hreyf­umst með. Það gef­ur augað leið að við höld­um ekki sömu fram­leiðni og áætlað var. Við höf­um hvorki fjár­hags­legt bol­magn í það né tíma á sviði eða sýn­ing­ar­kvöld,“ seg­ir Bryn­hild­ur Guðjóns­dótt­ir borg­ar­leik­hús­stjóri um nýhafið starfs­ár.

„Eft­ir stend­ur að hér rík­ir kraft­ur og gleði og við erum held­ur bet­ur til­bú­in til að taka á móti gest­um. Okk­ar aðal­hlut­verk er að halda utan um hug og hjörtu lands­manna og það ætl­um við svo sann­ar­lega að gera,“ seg­ir Bryn­hild­ur og bend­ir á að gild­andi sam­komutak­mark­an­ir liti fram­boð leik­húss­ins. Seg­ir hún ekk­ert laun­ung­ar­mál að nánd­ar­tak­mark­an­ir í sal feli í sér að aðeins sé hægt að vera með um 35% sæta­nýt­ingu og höggvi því skarð í fjár­hag leik­húss­ins. „Það er ekki nema fyr­ir ábyrg­an rekst­ur síðustu ára sem við höld­um sjó í nú­ver­andi ástandi. Við fær­um tvær sýn­ing­ar frá þessu leik­ári til þess næsta,“ seg­ir Bryn­hild­ur og vís­ar þar til Caligula eft­ir Cam­us í leik­stjórn Javors Gardev og Þétt­ing­ar hryggðar eft­ir Dóra DNA og Unu Þor­leifs­dótt­ur í leik­stjórn Unu. 

Það verður að vera gam­an

„Að auki end­ur­hugs­um við sýn­ing­una Room 4.1 – Live eft­ir Kristján Ingimars­son og lög­um okk­ur að aðstæðum. Úrvalið er þó al­deil­is full­nægj­andi,“ seg­ir Bryn­hild­ur og tek­ur fram að hún bindi mikl­ar von­ir við að sýn­ing­ar á Bubba-söng­leikn­um Níu líf­um eft­ir Ólaf Egil Eg­ils­son í leik­stjórn höf­und­ar geti haf­ist á ný á Stóra sviðinu 1. októ­ber. „Sem stend­ur erum við með 32 upp­seld­ar sýn­ing­ar,“ seg­ir Bryn­hild­ur og bend­ir á að stór hluti þeirra sem náði að sjá þær þrjár sýn­ing­ar sem sýnd­ar voru á Níu líf­um í mars áður en sam­komu­bannið skall á hafi þegar keypt sér miða til að sjá sýn­ing­una aft­ur. „Gleðin, ork­an og kraft­ur­inn í kring­um þessa sýn­ingu er mögnuð og við bíðum væg­ast sagt með óþreyju eft­ir að hefja sýn­ing­ar á ný,“ seg­ir Bryn­hild­ur og tek­ur fram að leik­húsið sé korta­gest­um sín­um þakk­látt fyr­ir sýnd­an skiln­ing og tryggð á erfiðum tím­um.

Í raun má segja að yf­ir­stand­andi leik­ár hafi haf­ist um liðna helgi þegar upp­færsla sviðslista­hóps­ins CGFC á Kart­öfl­um var tek­in aft­ur til sýn­ing­ar. „Þetta er dá­sam­leg sýn­ing,“ seg­ir Bryn­hild­ur og rifjar upp að Kart­öfl­ur hafi verið hluti af röðinni Umbúðalaust sem hóf göngu sína á síðasta ári og er vett­vang­ur til­rauna ungs sviðslista­fólks. „Líkt og yf­ir­skrift­in gef­ur til kynna þá setj­um við þar áhersl­una á inni­haldið þar sem umbúðirn­ar eru auka­atriði,“ seg­ir Bryn­hild­ur og bend­ir á Umbúðalaust-sýn­ing­in Ertu hér? eft­ir Ásrúnu Magnús­dótt­ur og Höllu Þór­laugu Óskars­dótt­ur sem vera átti í vor verði sýnd í októ­ber. „Í vet­ur bjóðum við síðan leik­skáld­um húss­ins, Matth­íasi Tryggva Har­alds­syni og Evu Rún Snorra­dótt­ur, að setja upp sitt verkið hvort í vinnslu und­ir merkj­um Umbúðalauss, sem spenn­andi verður að sjá,“ seg­ir Bryn­hild­ur og und­ir­strik­ar mik­il­vægi þess að Borg­ar­leik­húsið sé í virku sam­tali við gras­rót­ina.

Fyrsta frum­sýn­ing leik­árs­ins er Ole­anna eft­ir Dav­id Mamet í þýðingu Krist­ín­ar Ei­ríks­dótt­ur á Nýja sviðinu 18. sept­em­ber í leik­stjórn Hilm­is Snæs Guðna­son­ar og Gunn­ars Gunn­steins­son­ar, sem frestað var í vor vegna kófs­ins. „Hér er á ferðinni kraft­mikið og beitt verk sem tal­ar enn beint inn í sam­tím­ann. Lyk­il­spurn­ing­ar verks­ins snú­ast um vald og valda­leysi.“

Fyrsta frum­sýn­ing­in á Stóra sviðinu verður Veisla eft­ir Sögu Garðars­dótt­ur og leik­hóp­inn í leik­stjórn Bergs Þór Ing­ólfs­son­ar þar sem veislu­menn­ing land­ans er til skoðunar. „Þessa sýn­ingu átti að frum­sýna í vor. Þegar ég sá hvaða efnivið þau voru með í hönd­un­um fannst mér ein­boðið að stækka sýn­ing­una og færa frá Litla yfir á Stóra sviðið,“ seg­ir Bryn­hild­ur og bend­ir á að Veisla verði kær­kom­in öll­um þeim sem misst hafi af veisl­um í kóf­inu. „Þetta er mylj­andi fynd­in nú­tímarevía þar sem mottóið er: Það verður að vera gam­an.“

Morðgáta og ástar­bréf

Útlend­ing­ur­inn – morðgáta nefn­ist nýtt verk úr smiðju Friðgeirs Ein­ars­son­ar og í leik­stjórn Pét­urs Ármanns­son­ar sem frum­sýnt verður á Litla sviðinu 2. októ­ber. „Þetta er annað verkið í ráðgátuþríleik Friðgeirs hér í Borg­ar­leik­hús­inu sem hófst með Club Rom­antica í fyrra. Í þessu verki reyn­ir Friðgeir að leysa 50 ára gam­alt morðmál og kom­ast að því hvað kom fyr­ir Ísdalskon­una svo­nefndu sem fannst lát­in skammt frá Ber­gen 1970,“ seg­ir Bryn­hild­ur og tek­ur fram að dá­sam­legt sé að fylgj­ast með Friðgeiri að störf­um. „Friðgeir er meist­ari í ein­lægu, fal­legu og óþægi­lega fyndnu leik­húsi.“

Síðasta frum­sýn­ing almanaks­árs­ins er Or­landó eft­ir Virg­iniu Woolf í þýðingu Krist­ín­ar Ei­ríks­dótt­ur á Nýja sviðinu 30. des­em­ber. „Skáld­saga Woolf hef­ur verið nefnd lengsta og fal­leg­asta ástar­bréf sög­unn­ar. Í verk­inu er ferðast gegn­um 400 ára sögu Eng­lands með ung­lings­pilt­in­um Or­landó sem nótt eina í Konst­antínópel sofn­ar og vakn­ar viku síðar sem kona,“ seg­ir Bryn­hild­ur og bend­ir á að verkið fjalli ekki síst um mik­il­vægi þess að radd­ir lista­kvenna fái að heyr­ast. „Það er okk­ur sér­stakt ánægju­efni að geta kynnt glæ­nýtt list­rænt teymi til leiks. Arn­björg María Daniel­sen leik­stýr­ir og ger­ir leik­gerðina í sam­vinnu við þýðand­ann, Ingi­björg Jara Sig­urðardótt­ir hann­ar leik­mynd og bún­inga og Her­dís Stef­áns­dótt­ir sem­ur tón­list­ina,“ seg­ir Bryn­hild­ur sem er full til­hlökk­un­ar að sjá út­kom­una. „Arn­björg er með brak­andi fersk­an leik­hóp, þau Völu Krist­ínu Ei­ríks­dótt­ur, Láru Jó­hönnu Jóns­dótt­ur og Jör­und Ragn­ars­son auk þess sem við bjóðum til okk­ar tveim­ur ný­út­skrifuðum leik­ur­um, þeim Árna Þór Lárus­syni og Daní­el Takefusa, sem báðir lærðu leik­list í London.

Fagna 40 ára leikaf­mæli sínu

Fyrsta frum­sýn­ing á nýju ári verður Sölumaður deyr eft­ir Arth­ur Miller í þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafns­son­ar og leik­stjórn Krist­ín­ar Jó­hann­es­dótt­ur á Stóra sviðinu 15. janú­ar. „Þarna er um að ræða stór­virki Millers sem Krist­ín ætl­ar að skoða út frá heim­speki Jean-Pauls Sartres, sem er gríðarlega spenn­andi. Gyða Val­týs­dótt­ir sem­ur tón­list­ina, Brynja Björns­dótt­ir hann­ar leik­mynd­ina og Þór­unn María Jóns­dótt­ir bún­ing­ana. Það er því mikið kvennafans sem stend­ur að upp­setn­ingu þessa mjög svo karllæga verks,“ seg­ir Bryn­hild­ur og bend­ir á að meðal nýrra leik­ara séu Þor­steinn Bachmann, Stefán Jóns­son og Rakel Ýr Stef­áns­dótt­ir, sem er ný­út­skrifuð úr LHÍ. „Í aðal­verk­um eru Jó­hann Sig­urðar­son og Sigrún Edda Björns­dótt­ir, sem með þess­ari upp­færslu fagna 40 ára leikaf­mæli sínu.“

Tón­leik­hús fyr­ir börn

Leik­ritið Taktu lagið Lóa eft­ir Jim Cartwright í þýðingu Braga Valdi­mars Skúla­son­ar verður frum­sýnt á Nýja sviðinu í mars. „Þar held­ur Þóra Karítas Árna­dótt­ir um taum­ana en hún leik­stýr­ir þess­um gull­mola Cartwrights. Rakel Björk Björns­dótt­ir fer með titil­hlut­verkið sem er marg­slungið og fal­legt,“ seg­ir Bryn­hild­ur og bend­ir á að Katla Mar­grét Þor­geirs­dótt­ir fari með veiga­mikið hlut­verk móður Lóu. „Þetta er í senn harm­ræn og fynd­in saga, en í aðstæðum verks­ins er ekki pláss fyr­ir þá næmni, feg­urð og kær­leika sem Lóa býr yfir. Þriggja manna hljóm­sveit verður á sviðinu og því spilað á all­an til­finn­ingaskalann.“

Ég hleyp eft­ir Line Mør­ke­by í þýðingu Auðar Övu Ólafs­dótt­ur og leik­stjórn Bald­vins Z birt­ist á Nýja sviðinu í vor. „Þarna ætl­ar okk­ar allra besti Gísli Örn Garðars­son að hlaupa til góðs,“ seg­ir Bryn­hild­ur, en tekj­ur Gísla Arn­ar af sýn­ing­unni renna til sam­tak­anna Nýrr­ar dög­un­ar, Bergs­ins, Ljóns­hjarta og Drop­ans. „Þetta er frá­bært leik­rit sem fjall­ar um mann sem byrj­ar að hlaupa eft­ir barn­smissi,“ seg­ir Bryn­hild­ur, en ráðgert er að Gísli Örn þurfi að hlaupa 10-12 km á hverri sýn­ingu. „Síðasta frum­sýn­ing leik­árs­ins er svo upp­lif­un­ar­leik­hús Kristjáns Ingimars­son­ar sem snýr okk­ur öll­um á hvolf í Room 4.1 – Live. Þátt­tak­end­ur eru leik­ar­ar Borg­ar­leik­húss­ins og dans­ar­ar Íslenska dans­flokks­ins,“ seg­ir Bryn­hild­ur, en frum­sýnt verður á Stóra sviðinu í mars.

Að vanda býður Borg­ar­leik­húsið upp á tvær sam­starfs­sýn­ing­ar á leik­ár­inu, en í ár er um tvær barna­sýn­ing­ar að ræða. Ann­ars veg­ar Stúlk­an sem stöðvaði heim­inn í leik­stjórn Helgu Arn­alds, sett upp í sam­starfi við sviðslista­hóp­inn 10 fing­ur, sem frum­sýnd verður á Litla sviðinu 30. októ­ber og hins veg­ar Fugla­bjargið eft­ir Birni Jón Sig­urðsson í leik­stjórn Hall­veig­ar Krist­ín­ar Ei­ríks­dótt­ur, sett upp í sam­starfi við sviðslista­hóp­inn Hin fræga önd, sem frum­sýnd er á Litla sviðinu í janú­ar.

„Í Stúlk­unni sem stöðvaði heim­inn er á mynd­ræn­an, fræðandi og fal­leg­an hátt verið að fjalla um sóun, rusl og hvernig við ætl­um að hugsa um heim­inn okk­ar. Þau not­ast við víd­eóvörp­un til að segja sög­una þar sem hið smæsta verður hið stærsta,“ seg­ir Bryn­hild­ur og bend­ir á að áhorf­end­um verði boðið að taka þátt í lista­smiðju að sýn­ingu lok­inni.

Fugla­bjargið er áferðarfag­urt tón­leik­hús fyr­ir börn þar sem hljóðfæra­leik­ar­ar og söngv­ar­ar verks­ins bregða sér í allra fugla líki,“ seg­ir Bryn­hild­ur, en tónlist verks­ins er í hönd­um Ingi­bjarg­ar Ýrar Skarp­héðins­dótt­ur. „Áhorf­end­ur fá að fylgj­ast með einu ári á eyj­unni Skrúði fyr­ir mynni Fá­skrúðsfjarðar og kynn­ast fugla­líf­inu þar.“ Auk þess verða barna­sýn­ing­arn­ar Gosi, sem hlaut Grím­una 2020 sem barna­sýn­ing árs­ins og Jólaflækja einnig sýnd­ar á leik­ár­inu.

Ragn­ar með Skyndi­leik­hús

Þrjár gesta­sýn­ing­ar verða sýnd­ar í Borg­ar­leik­hús­inu í vet­ur. Fyrst ber þar að nefna Rocky eft­ir Tue Bier­ing í leik­stjórn Vign­is Rafns Valþórs­son­ar sem sýnd verður á Nýja sviðinu í fe­brú­ar. „Það er ótrú­lega gam­an að geta tekið á móti Rocky í upp­færslu Óska­barna ógæf­unn­ar, enda féll­um við al­gjör­lega fyr­ir þess­ari sýn­ingu sem er bæði æt­andi og tæt­andi ,“ seg­ir Bryn­hild­ur og rifjar upp að Sveinn Ólaf­ur Gunn­ars­son hafi fengið Grím­una 2020 sem leik­ari árs­ins fyr­ir hlut­verk sitt.

„Hinar tvær gesta­sýn­ing­arn­ar eru óper­ur sem sýnd­ar verða und­ir hatti Óperu­daga í Reykja­vík í októ­ber. Þetta eru óper­urn­ar Kok eft­ir Þór­unni Grétu Sig­urðardótt­ir í leik­stjórn Kolfinnu Nikulás­dótt­ur og Corpo Sur­real sem unn­in er í sam­starfi við Alþýðuóper­una. „Það er gríðarlega spenn­andi að geta boðið upp á óperu­sýn­ing­ar í Borg­ar­leik­hús­inu,“ seg­ir Bryn­hild­ur.

„Í fyrra hóf göngu sína verk­efnið Kvöld­stund með lista­manni, sem tókst afar vel og verður fram­haldið í vet­ur. Fyrsta kvöld­stund­in nefn­ist Fíla­lag og verður í októ­ber þar sem Berg­ur Ebbi og Snorri Helga­son fíla lag í anda sam­nefnds hlaðvarps þeirra,“ seg­ir Bryn­hild­ur og bend­ir á að seinni hluti sýn­ing­ar­inn­ar verði nokk­urs kon­ar bar­svar. „Milda hjarta hef­ur síðan göngu sína í nóv­em­ber, en þar mun tón­list­armaður­inn Jón­as Sig taka áhorf­and­ann með sér í óvenju­legt ferðalag tals og tóna frá krumpaðri karl­mennsku til mennsku hins milda hjarta,“ seg­ir Bryn­hild­ur, en leik­stjóri verks­ins er Þor­steinn Bachmann. „ Vera Ill­uga­dótt­ir og Hall­ur Ing­ólfs­son stíga svo á svið með Í ljósi sög­unn­ar í janú­ar, en um er að ræða fjór­ar kvöld­stund­ir í sam­starfi við RÚV.

Hér í Borg­ar­leik­hús­inu verður því í vet­ur hægt að upp­lifa alla liti lífs­ins – en eins og við vit­um eru þeir bæði bjart­ir og dimm­ir,“ seg­ir Bryn­hild­ur og bend­ir á að sem viðbragð við kóf­inu ætli Borg­ar­leik­húsið að auki að bjóða upp á Skyndi­leik­hús. „Það eru viðburðir sem aug­lýst­ir verða með stutt­um fyr­ir­vara og aðeins haldn­ir einu sinni. Þeir eru hugsaðir sem nokk­urs kon­ar stækkuð mynd af streym­inu okk­ar, sem mælt­ist afar vel fyr­ir í vor. Fyrsti viðburður­inn er 24. sept­em­ber en þá sam­eina Saga Garðars­dótt­ir, Ugla Eg­ils­dótt­ir og Ragn­ar Kjart­ans­son krafta sína á Stóra sviðinu í óvænt­um leik. Loks má nefna að við höld­um áfram að bjóða upp á textun sýn­inga á Stóra sviðinu þar sem áhorf­end­ur geta í gegn­um smá­for­rit fengið textun á ís­lensku, ensku og pólsku.“

Viðtalið við Bryn­hildi birt­ist fyrst í Morg­un­blaðinu fimmtu­dag­inn 10. sept­em­ber. 

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Vatnsberi

Sign icon Heppnin er með þér núna, svo virðist sem tekjur þínar muni aukast á næstu sex vikum. Reyndu að sýna þeim sem eru í kring um þig þolinmæði og umburðarlyndi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofie Sar­en­brant
2
Erla Sesselja Jens­dótt­ir
3
Árni Þór­ar­ins­son og Páll Krist­inn Páls­son
4
Jill Man­sell
5
Unni Lindell
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Vatnsberi

Sign icon Heppnin er með þér núna, svo virðist sem tekjur þínar muni aukast á næstu sex vikum. Reyndu að sýna þeim sem eru í kring um þig þolinmæði og umburðarlyndi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofie Sar­en­brant
2
Erla Sesselja Jens­dótt­ir
3
Árni Þór­ar­ins­son og Páll Krist­inn Páls­son
4
Jill Man­sell
5
Unni Lindell