Game of Thrones-leikkonan Emilia Clarke og The Crown-leikarinn Matt Smith eru sögð eiga í ástarsambandi. Parið sást úti að borða saman á föstudagskvöldið og virtust njóta þess að vera saman.
Parið sást saman í Lundúnum á föstudagskvöldið. Eru þau sögð hafa borðað saman á veitingastaðnum Bob Bob Ricard sem er veitingastaður með rússnesku ívafi í Soho. Eftir máltíðina héldu þau út í haustnóttina og birti Daily Mail myndir af parinu.
Smith sem er 37 ára lék Filippus prins í The Crown en Clarke sem er 33 ára lék drekamóðurina í hinum vinsælu Game of Thrones. Þau Smith og Clarke léku saman í Terminator: Genisys sem kom út árið 2015.
Smith hætti með leikkonunni Lily James fyrir áramót en þau voru búin að vera saman í fimm ár. Clarke hætti nýverið með Charlie McDowell, erfðaprinsi frá Hollywood, en faðir hans er breski leikarinn Malcolm McDowell og móðir hans óskarsverðlaunaleikkonan Mary Steenburgen. Stjúpfaðir hans er svo Staupasteins-leikarinn Ted Danson.