Áætlað er að tökur á þriðju seríu af Ófærð hefjist á Siglufirði í september að því er fram kemur í tilkynningu á vefnum Trölli.is.
Sjónvarpsþættirnir Ófærð hafa notið mikilla vinsælda á síðustu árum bæði hér heima og erlendis. Þættirnir fjalla um lögreglumanninn Andra Ólafsson sem leikarinn Ólafur Darri Ólafsson túlkar.
Á bilinu 60 til 80 manns munu koma til Siglufjarðar í tengslum við tökurnar sem áætlað er að ljúki í kringum 9. október. Hópurinn mun dvelja í húsum víðsvegar um bæinn og einnig á hótelum að því er fram kemur á vef Trölla.
Tökur munu að hluta til fara fram í Sundlaug Siglufjarðar og verður laugin lokuð á meðan. Líkamsrækt og íþróttahús verða opið á meðan en tökur eru fyrirhugaðar í sundlauginni 24. september næstkomandi.