Mikilvæg samvera og nánd

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíós Paradísar, og Karna Sigurðardóttir, stjórnandi Skjaldborgar.
Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíós Paradísar, og Karna Sigurðardóttir, stjórnandi Skjaldborgar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildarmynda, verður haldin í samstarfi við Bíó Paradís nú um helgina, 18.-20. september, en hátíðinni var frestað í tvígang fyrr á árinu vegna kófsins. Skjaldborg er jafnframt fyrsta hátíðin sem haldin er í Bíó Paradís sem hefur verið lokað frá því um miðjan mars. Óvíst var þá um framtíð kvikmyndahússins en nú hefur tekist að tryggja rekstur þess og viðamiklar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu.
Þrettán myndir verða frumsýndar á hátíðinni og sjö verk í vinnslu kynnt og er dagskráin nánast óbreytt frá þeirri sem kynnt var í júlí. Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er Hrafnhildur Gunnarsdóttir og verða sýndar valdar myndir eftir hana auk þess sem kvikmyndagerðarmaðurinn Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson mun leiða masterklassa með henni.

Ekkert grín að vera menningarstjórnandi 


„Það er ekkert grín að vera menningarstjórnandi í dag við þessar aðstæður,“ segir Karna Sigurðardóttir, stjórnandi hátíðarinnar. „Margar kvikmyndahátíðir hafa farið fram á netinu en Skjaldborg snýst svo mikið um samveru og nánd, þetta er eins konar árshátíð heimildarmyndagerðarfólks og því var okkur mikilvægt að fólk kæmi saman, að við myndum ná því. Þó við séum að vinna með mjög miklar takmarkanir þá er það kjarninn í Skjaldborg, samveran og samtölin sem myndast milli mynda.“ Karna segir boðið upp á mjög góða heimildarmyndaveislu og að dagskrá Skjaldborgar eflist með ári hverju.


Fjölbreytt viðfangsefni


Eftirfarandi heimildarmyndir verða frumsýndar á Skjaldborg en lýsingar eru fengnar af vef Bíós Paradísar.
Senur úr listrænu ferli
Leikstjóri Ívar Erik Yeoman. Heimildarmynd sem veitir einstaka innsýn í vinnu leikstjórans Hlyns Pálmasonar við gerð kvikmyndarinnar Hvítur, hvítur dagur. Með aðgang að vídeódagbókum Hlyns og með því að fylgja tökuliði myndarinnar eftir eins og fluga á vegg, fangar verkið senur úr listrænu ferli þessa margverðlaunaða kvikmyndagerðarmanns á myndrænan og einlægan hátt.
Að sýna sig og sjá aðra
Leikstjóri Sandra Björg Ernudóttir. Þann 1. febrúar árið 2020 var þorranum fagnað í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík. Þar var samankominn fjöldi Ólsara til að sýna sig og sjá aðra. Skyggnst verður inn í undirbúning og framkvæmd þorrablótsins.
Aftur heim?
Leikstjóri Dögg Mósesdóttir.
Sögur kvenna í heimafæðingu í gegnum linsu kvikmyndagerðarkonu sem skoðar viðhorf sitt til kvenleikans eftir tilraun til að fæða heima.
Hálfur Álfur
Leikstjóri Jón Bjarki Magnússon. Vitavörðurinn Trausti tengist sínum innri álfi á meðan hann undirbýr hundrað ára afmælið eða eigin jarðarför. Á sama tíma hörfar Hulda inn í heim horfinna ljóða með aðstoð stækkunarglersins síns. Þegar hann brestur í söng skipar hún honum að hætta þessum öskrum.
Last And First Men
Leikstjóri Jóhann Jóhannsson. Í myndinni flökkum við um svæði í niðurníðslu þar sem sorglegir atburðir hafa gerst – staðir hlaðnir táknrænni merkingu. Í gegnum myndina skynjum við nærveru, einhvers konar vitund sem er að reyna að hafa samband við okkur.
Shore Power
Leikstjóri Jessica Auer. Skemmtiferðaskip kemur til hafnar á Seyðisfirði með farþega sem jafnast á við sexfaldan íbúafjölda bæjarins og er fjórum sinnum hærra en nokkurt mannvirki á staðnum.
PLAY!
Leikstjóri Þórunn Hafstað. Rétt utan við borgina starfaði einstakur leikskóli um skeið þar sem leiksvæðið var ósnert náttúran um kring. Leikurinn leiðir okkur inn í heim þar sem börnin kanna umhverfið en fullorðnir sjást hvergi. Skyndilega verður rof í þessari tilveru þegar fullorðnir skerast í leikinn og krökkunum er smalað inn í hádegismat; þann síðasta á þessum stað.
Góði hirðirinn
Leikstjóri Helga Rakel Rafnsdóttir. Myndin er sería af lifandi póstkortum frá afskekktum stað sem sumir sjá sem ævintýraland á meðan aðrir býsnast yfir draslinu.
Er ást
Leikstjóri Kristín Andrea Þórðardóttir. Helena Jónsdóttir kvikmyndaleikstjóri og Þorvaldur Þorsteinsson, skáld og myndlistarmaður, voru par og nærðust á skapandi lífskrafti hvort annars. Þar til dauðinn aðskilur eru heit sem ná út fyrir tíma og rúm en Þorvaldur lést árið 2013. Helena leitar að styrk til að halda áfram með líf sitt og listsköpun samhliða því að koma arfleifð hans í örugga höfn.
Just A Closer Walk With Thee
Leikstjóri Matthew Barney. Myndin er óður til Ólafs Stephensen, djassgeggjara og auglýsingamanns, sem féll frá 2016. Lagið er amerískt þjóðlag og vinsæll jarðarfararsálmur í New Orleans. Myndin lýsir á óhlutbundinn hátt einhvers konar jarðarför en á sama tíma nýrri byrjun, lífshlaupi og frelsi.
MÍR: Byltingin lengi lifi
Leikstjóri Haukur Hallsson. Félagið MÍR var stofnað árið 1950 í þeim tilgangi að efla menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna sálugu. Nú, þremur áratugum eftir fall járntjaldsins, heldur félagið enn lífi í byltingunni með vikulegum sýningum á gömlum sovéskum kvikmyndum. En er hér einungis fortíðarþrá á ferðinni eða á félagið arfleifð sem vert er að varðveita?
Ökukveðja
Leikstjóri Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir. „Myndin fjallar um ferlið við að hætta að keyra og mína leið til að takast á við þá breytingu að vera farþegi en ekki með hönd á stýri. Af hverju kvíði ég svona fyrir að hætta að keyra? Hvernig ökumaður var ég að mati vina og ættingja? Hvað er svona merkilegt við að keyra, er ekki fínt að geta bara verið full aftur í eins og alvörulistamaður?“ skrifar Kolbrún.
The Arctic Circus
Leikstjórar Håkon Sand og Gudmund Sand. Í myndinni kynnumst við íslenskum sirkuslistamönnum á ferðalagi þeirra um landið.

Tvær myndir úr höfundarverki Hrafnhildar Gunnarsdóttur verða einnig sýndar á hátíðinni:

Hver hengir upp þvottinn?
Myndin sýnir mannréttindabaráttukonuna Tinu Naccache þvo þvottinn í íbúð sinni í Beirút. Kúnstin við þvottana afhjúpar hið raunverulega eftirstríðsástand í borginni sem er enn þjáð af vatns- og rafmagnsskorti eftir margra ára stríð og átök.
Hrein og bein
Í kvikmyndinni segja samkynhneigð ungmenni frá lífi sínu. Þau rifja upp einmanaleikann, ástarþrána, óttann við höfnun og skort á jákvæðum fyrirmyndum, uns þeim tókst að rjúfa vítahringinn, segja frá tilfinningum sínum og læra að njóta eigin tilveru. Húmor og alvara togast á í þessari einlægu og hispurslausu mynd um reynslu nokkurra íslenskra unglinga og hvað það þýðir að takast á við flóknar staðreyndir lífsins, leysa fjötrana og eignast hamingjusamt líf.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er vænlegri í samskiptum við foreldra og yfirmenn en gærdagurinn. Láttu engan komast upp með undanbrögð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Sarah Morgan
3
Jenny Colgan
4
Sofia Rutbäck Eriksson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er vænlegri í samskiptum við foreldra og yfirmenn en gærdagurinn. Láttu engan komast upp með undanbrögð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Sarah Morgan
3
Jenny Colgan
4
Sofia Rutbäck Eriksson