„Fáheyrður viðburður“

Ragnar Jónasson gerir það gott í Þýskalandi.
Ragnar Jónasson gerir það gott í Þýskalandi. mbl.is/Arnþór

„Mér finnst þetta alveg magnað og sannarlega ánægjulegt. Ég finn fyrir stolti, enda hefði ég aldrei getað ímyndað mér þetta þegar ég var að byrja að skrifa, að ná því að eiga þrjár bækur á topp tíu lista í Þýskalandi. Að segja þetta er hálfóraunverulegt fyrir mig,“ segir Ragnar Jónasson rithöfundur um þá staðreynd að þrjár af bókum hans eru nú á sama tíma á topp tíu lista í bóksölu í Þýskalandi.

Spennusagan Mistur fór beint í fjórða sætið á metsölulista Der Spiegel þegar hún kom út í Þýskalandi nýlega, en hún er þriðja bók Ragnars um lögreglukonuna Huldu. Fyrri tvær bækurnar, Dimma og Drungi, eru einnig á listanum.

„Þetta hefur farið fram úr björtustu vonum, því þó svo að Dimma og Drungi hafi strax átt góðu gengi að fagna í vor, þá bjóst ég ekki við að þær héldust áfram á listanum þegar sú þriðja kom út,“ segir Ragnar og bætir við að bækur eftir hann hafi verið gefnar út í Þýskalandi undanfarin tíu ár, en það sé ekki fyrr en nú sem þær fara inn á metsölulista.

„Fyrstu fimm bækur mínar sem komu út á þýsku seldust í meðallagi, en fyrir vikið kann ég enn betur að meta þessa sölu núna. Þegar sú fyrsta fór inn á metsölulistann í vor, fannst mér það alveg stórkostlegt, en ég átti alls ekki von á að hún héldist inni á listanum allan þennan tíma.“

Skrifa það sem ég vil lesa

Ragnar segir að vissulega hefði verið frábært að fylgja strax góðu gengi bókanna eftir úti í Þýskalandi, en vegna Covid-19 sé það útilokað.

„Engir viðburðir eru í Þýskalandi, en það stendur til að ég fari þangað á næsta ári til að fylgja þessu eftir. Fram að því tala bækurnar sínu máli, en kannski hefur covid orðið til þess að fólk les meira af bókum. Ég sem rithöfundur vissi ekkert við hverju var að búast í mars þegar covid skall á og bókabúðum um allan heim var lokað. Ég hélt að bóksala mundi jafnvel leggjast af, en raunin hefur orðið önnur,“ segir Ragnar sem í bókum sínum hefur ekki fylgt því sem víða má sjá í nútíma-glæpasögum, að hafa ofbeldið sem grófast og láta líkin hrannast upp.

„Ég skrifa bækur eins og ég vil sjálfur lesa, þær eru ekki mjög blóðugar og fókusinn er á annað en ofbeldið eða glæpinn. Mér finnst áhugaverðara að skrifa um mannlegt eðli, sem öfgakenndar aðstæður geta dregið fram. Ég held að gáta sem þarf að leysa haldi fólki meira við lesturinn en fjöldi glæpa. Einnig heillar mig mikið að reyna að koma fólki á óvart í mínum bókum,“ segir Ragnar sem sækir sinn innblástur til Agöthu Christie, en hann hefur þýtt nokkrar bækur glæpasagnadrottningarinnar.

„Ég vil halda við þessari gamaldags ráðgátuhefð, að ég sé aðeins í leik með lesanda, þar sem hann keppist við að leysa gátuna,“ segir Ragnar sem sendir frá sér nýja bók nú í október. „Hún heitir Vetrarmein og gerist á Siglufirði. Hún kemur út á þremur tungumálum samtímis, á íslensku hér heima á Íslandi, á frönsku í Frakklandi og á ensku í Bretlandi og Bandaríkjunum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu ekki meiri kröfur til sjálfs þín en þú ert fær um að standast. Reyndu að semja við alla sem þú hittir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu ekki meiri kröfur til sjálfs þín en þú ert fær um að standast. Reyndu að semja við alla sem þú hittir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach