Ferðasaga pólfara

Þrír leikarar fara með fjölda hlutverka í Polishing Iceland.
Þrír leikarar fara með fjölda hlutverka í Polishing Iceland. Ljósmynd/Patrik Ontkovic

„Það er léttur ljóðrænn tónn í sýningunni, húmor og ljúfsár írónía. Allt borið fram af örlæti og afslappaðri fimi,“ segir í leikdómi Þorgeirs Tryggvasonar um Polishing Iceland sem alþjóðlegi sviðslistahópurinn Reykjavík Ensemble sýnir í Tjarnarbíói um þessar mundir. Í leikdómi sínum, sem birtist fyrst í Morgunblaðinu mánudaginn 28. september, gefur hann uppfærslunni fjórar stjörnur. 

Í leikdómi sínum bendir Þorgeir Tryggvason á að hið stóra og líflega samfélag Pólverja á Íslandi sé smám saman að verða sýnilegra. „Við þessi sem eigum hér ættir aftur í aldir og lærðum íslensku heima hjá okkur erum smám saman að vakna til meðvitundar um að við lifum í fjölbreyttara samfélagi en við ólumst upp í. Þessa sér góðu heilli líka merki í menningarlífinu, þó vel megi merkja og skilja óþreyju fyrir að hlutir breytist hægt. Bíó Paradís hefur lagt sig fram um að bjóða upp á nýjar pólskar kvikmyndir og á síðasta leikári hóf Borgarleikhúsið að gera tilraunir með að texta valdar sýningar á pólsku.

En þjónusta er eitt en þátttaka annað. Þar kemur Reykjavík Ensemble sterkt inn; alþjóðlegur leikhópur undir forystu Pálínu Jónsdóttur og Ewu Marcinek sem hefur til þessa fyrst og fremst tekið til meðferðar pólskan veruleika, sjálfsmynd og sögu. Að ógleymdri stöðu í íslensku samfélagi.

Nafn sýningarinnar sem var (endur)frumsýnd í Tjarnarbíói fyrr í þessum mánuði gefur ekki bara vísbendingu um innihald heldur líka efnistök. Polishing Iceland, eða „Ísland pólerað“ eins og hún er stundum kölluð líka og er álíka skemmtilegt í léttri tvíræðni sinni. Sem er skyld, en aðeins önnur, en í enska titlinum. Texti sýningarinnar (sem er leikgerð Pálínu og Ewu upp úr smásögum þeirrar síðarnefndu) er uppfullur af orðaleikjum og hugleiðingum um orðaleiki, orðsifjar og merkingu sem verða til á þessu hálfblinda stefnumóti pólsku, íslensku og ensku, sem aðstæður Pólverja á Íslandi kalla á. Sem dæmi má nefna þá staðreynd að sú hversdagslega íslenska spurning „viltu poka?“ hljómar í eyrum stillt á pólsku sem „sýndu mér hver þú ert?“ Sem aftur býr til spennu milli persónulegrar nándar og sviplauss hversdagsins. Hins persónulega og þess ópersónulega. Einsemdar og félagsskapar.

Það er skáldlegt flug í textanum og létt áreynsluleysi sem nýtur sín vel í leikhússamhengi, þar sem ljóðrænan þarf að virka á viðtakandann á svipstundu, má ekki kalla á yfirlegu eða endurtekningu. Það er líka einhver sérstök stemning sem býr í því þegar leikari/persóna tjáir sig á máli sem hún hefur ekki að fullu á valdi sínu, er ekki á heimavelli. Hlátrasköllin frá pólskumælandi frumsýningargestum þegar móðurmál höfundar og aðalleikkonu tók yfir glöddu líka.“

Fimur leikhópurinn tókst að umskapa hurðarfleka í allar þær aðstæður …
Fimur leikhópurinn tókst að umskapa hurðarfleka í allar þær aðstæður sem þurfti í sýningunni Polishing Iceland. Ljósmynd/Patrik Ontkovic

Gagnrýnandi hrósar úrvinnslu Pálínu Jónsdóttur leikstjóra. „Polishing Iceland er einhverskonar léttleikandi revía eða heimspekilegur léttpólitískur sálarkabarett um menningarárekstra, lykla og orð, sem eins og allir vita duga skammt til að lýsa því sem við upplifum, hvað þá því hvernig okkur líður. Í úrvinnslu Pálínu Jónsdóttur er sam- og eintölum lipurlega og áreynslulaust fléttað saman raunsæislegu (og hæfilega ýktu) látbragði og stílfærðum hreyfingum á dansrófinu í sáraeinfaldri umgjörð sem samanstendur af einu hjólaborði og einum hurðarfleka sem fimur leikhópurinn umskapaði í allar þær aðstæður sem til þurfti.“

Í framhaldinu hrósar hann frammistöðu leikhópsins. „Magdalena Tworek nýtur sín vel í aðalhlutverkinu, býr að miklum sviðssjarma og hvíldi áreynslulaust í persónunni þrátt fyrir brotakennt og óraunsæislegt form sýningarinnar og stöðugt samband við áhorfendur. Pétur Óskar Sigurðsson brá sér í ýmis eftirminnileg hlutverk, uppskar mikla kátínu í salnum þegar hann benti á að Pólverjar á Íslandi hefðu ekki yfir miklu að kvarta, sjálfur væri hann frá Bíldudal og því jaðarsettur á höfuðborgarsvæðinu. Eins var snögg og þögul svipmynd hans af auðnulausum kærasta kostuleg. Michael Richardt er sérlega svipmikill leikari með sterka útgeislun og fimi. Það gustaði t.d. af honum sem unnustu fyrrnefnds auðnuleysingja, en tilkomumestur var Michael þó sem bolludeig.“

Dóminn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu mánudaginn 28. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Létta lundin þín mun afla þér stuðnings og samvinnu á vinnustað. Farðu oftar út að ganga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Létta lundin þín mun afla þér stuðnings og samvinnu á vinnustað. Farðu oftar út að ganga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson