Leikkonan Sienna Miller sagði frá því í viðtali nýlega að leikarinn Chadwick Boseman hefði passað vel upp á að hún fengi þau laun sem hún bað um fyrir að leika í kvikmyndinni 21 Bridges. Boseman lést fyrr á þessu ári úr ristilkrabbameini.
„Hann framleiddi 21 Bridges og hafði verið mjög virkur í að reyna að fá mig til að leika í henni. Hann var hrifinn af því sem ég hafði verið að gera, sem var spennandi, því ég var líka hrifin af hans vinnu,“ sagði Miller í viðtali við Empire magazine sem kom út í gær, mánudag. „Þannig að hann nálgaðist mig með þessa mynd en það var á þeim tímapunkti sem mig langaði ekki að vinna meira. Ég var búin að vinna viðstöðulaust og var úrvinda af þreytu, en mig langaði að vinna með honum,“ sagði Miller.
Hún var hikandi við að segja frá góðverki Bosemans í viðtalinu, en langaði til að tjá sig um hvaða mann hann hefði haft að geyma.
„Þau höfðu mikinn pening til að gera þessa mynd, og allir vita hvernig launamismunurinn er í Hollywood, en ég bað um tölu sem kvikmyndaverið vildi ekki greiða mér. Og af því að ég hafði hikað við að taka þetta verkefni að mér, og dóttir mín var að byrja í skóla og þetta var óhentugur tími, þá sagðist ég bara taka þetta verkefni ef ég fengi rétta upphæð fyrir það,“ sagði Miller.
„Og Chadwick endaði á því að lækka launin sín til að hækka launin mín upp í þá tölu sem ég hafði beðið um. Hann sagði að þetta væri upphæðin sem ég ætti skilið að fá,“ sagði Miller.
Hún segir að svona lagað gerist almennt ekki í Hollywood og hún hafi aldrei búst við þessu né upplifað þetta áður.
Miller segist hafa sagt nokkrum karlkyns kollegum sínum í Hollywood þessa sögu af Boseman og allir hafi verið orðlausir og tjáð sig lítið við hana um þetta.