Seinfeld-leikarinn Jason Alexander segist hafa átt erfitt uppdráttar eftir að hann lék í kvikmyndinni Pretty Woman. Í myndinni fór Alexander með hlutverk lögfræðingsins Phillips Stuckeys.
„Þetta voru einstakar aðstæður því þegar ég fékk hlutverkið vissi ég nákvæmlega að leikstjórinn vildi mig ekki. Ég var ekki það sem Garry Marshall vildi,“ sagði Alexander í viðtali við Robin Bronk í hlaðvarpinu At Home With The Creative Coalition.
Pretty Woman kom út árið 1990 og skartaði þeim Juliu Roberts og Richard Gere í aðalhlutverkum.
„Ég fór í áheyrnarprufur hjá honum og hann var mjög vingjarnlegur. Hann sagði eiginlega bara: „Þú ert of ungur. Þú ert of barnalegur. Þú ert of lítill.“ Hann reyndi að fá annan í hlutverkið og ég veit ekki af hverju en samningar náðust ekki. Ég fékk hlutverkið því þeir náðu ekki að gera samning við leikarann sem þeir vildu og þeir voru örvæntingarfullir,“ sagði Alexander.
Þegar upp var staðið segir Alexander að hlutverkið hafi valdið því að hann var um tíma einn hataðasti leikarinn.
„Ég var þekktur um heiminn sem fíflið sem reyndi að nauðga Juliu Robers, þannig að konur hötuðu mig. Ég gekk niður götuna og konur sögðu ljóta hluti við mig,“ sagði Alexander og bætir við að hann hafi þar að auki verið laminn og fólk skyrpt á hann.
Í dag er Alexander þó ekki þekktastur fyrir hlutverk sitt í Pretty Woman heldur fyrir hlutverk sitt í þáttunum vinsælu Seinfeld. Þættirnir voru í sýningu frá 1989 til ársins 1998.