„Í núverandi ástandi er sveigjanleiki lykilorðið og jafnframt reynir mikið á að koma auga á tækifærin í stöðunni. Meðan faraldurinn gengur yfir og við vitum ekki hvort og hvenær hægt verður að sýna fyrir fullu húsi, vegna fjarlægðar- og fjöldatakmarkana, munum við ekki freista þess að setja upp stórar klassískar sýningar með tilheyrandi áhættu, enda myndi það rekstrarmódel ekki ganga upp miðað við hversu mikið við leggjum í okkar uppfærslur. Það er hins vegar ýmislegt sem við getum gert án þess að hafa fullskipaða sali,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar, um komandi starfsár.
Nefnir hún í því samhengi ýmsar tónleikaraðir og sviðsetta tónleikauppfærslu á borð við Valkyrjuna sem fresta þurfti um tæpt ár í vor.
Starfsárið hófst í byrjun september þegar tvær tónleikaraðir Íslensku óperunnar hófu göngu sína. Annars vegar Kúnstpása sem verður að vanda einu sinni í mánuði í þriðjudagshádegi þar sem einsöngvari flytur óperuaríur og sönglög ásamt píanóleikara áhorfendum að kostnaðarlausu. Hins vegar ný tónleikaröð sem nefnist Söngskemmtun og verður á völdum laugardögum kl. 16. Kristinn Sigmundsson reið á varðið á Kúnstpásu og eftir munu fylgja Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Sigrún Pálmadóttir, Davíð Ólafsson, Karin Björg Torbjörnsdóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Björk Níelsdóttir og Áslákur Ingvarsson. Elmar Gilbertsson var fyrstur til að syngja á Söngskemmtun og á næstu tónleikum kemur Stuart Skelton fram ásamt Bjarna Frímanni Bjarnasyni.
„Þessar tvær tónleikaraðir eru hluti af því sem ég vil gera meira af meðan faraldurinn gengur yfir. Þetta eru einfaldari viðburðir sem hægt er að bjóða upp á hvar sem við erum stödd í litakóða almannavarna. Ég er mér mjög meðvituð um hvað hlutverk listastofnanna er mikilvægt á þessum krefjandi tímum sem við erum að fara í gegnum því okkur er gefið dýrmætt áhrifavald til þess að breyta lífsgæðum og líðan fólks til hins betra. Það er mjög mikilvægt að við förum vel með þá ábyrgð og leitum allra leiða til að skapa tækifæri til að létta fólki lífið og gera sem flestum kleift að komast í gegnum þetta eins farsællega og mögulegt er. Tónlistin og þá sérstaklega söngurinn er það sem gefur lífinu tilgang og linar þrautir og mótlæti þeirra sem mest þurfa á að halda.
Það má nefnilega ekki vanmeta andlega þáttinn, líðan fólks og lífsgæði þegar framtíðinni, eins og við þekktum hana, er allt í einu aflýst eða í það minnsta frestað með tilheyrandi álagi. Óvissan er vissulega mikill áhrifavaldur í okkar starfsemi en í henni felast líka mikil tækifæri og að mörgu leyti frelsi frá venjum og hefðum sem í einhverjum tilfellum var alveg tímabært að endurskoða. Við þurfum að segja sögur sem fólk tengir við hvenær sem þær eru skapaðar og mynda þannig persónuleg tengsl við áhorfendur, enda sýnir sagan að þær listastofnanir sem samfélög og þjóðir eru stoltar af eru þær sem vegnar vel og eiga sér bjarta framtíð fyrir höndum,“ segir Steinunn Birna og bendir á að þriðja viðburðaröð starfsársins sé enn í mótun.
„Ég sé fyrir mér að bjóða upp á valdar senur úr óperum sem sviðsettar væru að hluta. Mér finnst mikilvægt að við bjóðum gestum okkar upp á sömu listrænu gæðin þótt umfangið þurfi eðli málsins samkvæmt að vera minna um þessar mundir,“ segir Steinunn Birna og bendir á að hennar listræna sýn hafi ávallt verið sú að hrófla lítið við klassísku verkunum og leggja fremur áherslu á endursköpun óperuformsins með nýjum verkum.
„Við erum þannig mjög stolt af því að vera búin að panta næstu óperu frá Daníel Bjarnasyni höfund óperunnar Brothers sem er stórkostlegt meistaraverk. Nýju óperuna vinnur hann í samstarfi við kanadíska líbrettistann Royce Vavrek, en þeir eru listrænir sálarbræður,“ segir Steinunn Birna, en óperan mun byggja á sögu Agnesar Magnúsdóttur, sem tekin var af lífi árið 1830 fyrir morðin á Illugastöðum. „Þetta er dramatísk saga sem liggur beint við að færa í óperuform,“ segir Steinunn Birna sem leggur áherslu á að fá meðframleiðendur erlendis frá til að tryggja sýningunni framhaldslíf utan landsteinana.
„Uppfærslan, sem frumsýnd verður haustið 2023, verður tileinkuð öllum konum sem ekki hafa rödd í eigin örlögum og þær eru því miður allt of margar enn þann dag í dag á heimsvísu,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að sér hafi, út af umfjöllunarefninu, þótt nauðsynlegt að fá konu til að leikstýra og valið hina grísku Rodulu Gaitanou sem komið hefur að sköpunarferlinu frá byrjun. „Við erum komin vel á veg að móta efniviðinn, hlutverkin, senurnar og söguþráðinn og aðeins farin að velta fyrir okkur söngvurum,“ segir Steinunn Birna og áréttar að sköpunarferli frumsamdrar óperu séu að lágmarki tvo til þrjú ár. „Ópera er eins og borgarísjaki þar sem hið sýnilega yfir sjávarmáli er aðeins 10% af heildinni,“ segir Steinunn Birna og bendir á að hún hafi frá því hún tók við starfi óperustjóra látið sig dreyma um að koma sögu Agnesar í óperuform.
„Það er svo frábært þegar maður getur látið drauma sína og markmið rætast,“ segir Steinunn Birna og rifjar upp að önnur markmið hennar í starfi hafi verið „að styrkja enn frekar listræn gæði, koma Íslensku óperunni á alþjóðlega óperukortið og auka hreyfanleika hennar þannig að við getum sýnt þar sem hentar hverju verki best. Ég get merkt við þessi markmið og er mjög stolt af því,“ segir Steinunn Birna og áréttar að það sé komið að því að setja sér ný markmið og móta stefnu stofnunarinnar í nýjum veruleika.
„Það er ástæða fyrir því að listrænir stjórnendur eru ekki æviráðnir. Það þarf mikinn eldmóð, ástríðu og úthald til þess að sinna stjórnendastarfi og því gott að endurnýja kraftinn reglulega,“ segir Steinunn Birna og ítrekar að samtímis þurfi stjórnendur listastofnana að búa yfir réttu blöndunni af bjartsýni og raunsæi. „Það eru alltaf þó nokkrir sem telja sig vita betur hvernig eigi að gera hlutina, því það er svo auðvelt að hafa skoðanir á því sem maður ber ekki ábyrgð á. Stjórnendur þurfa því ávallt að hafa breiðan sjóndeildarhring en halda samtímis tryggð við eigin sýn, sem er oft mikill línudans.“
Tvö verkefni síðasta starfsárs færast yfir á nýhafið starfsár vegna faraldursins. Þetta eru annars vegar Örlagaþræðir, sem frumsýnt verður í nóvember, í sviðsetningu Níelsar Th. Girerd. Steinunn Birna lýsir verkinu sem samrunaverki þar sem söngur og dans renna saman í túlkun á ljóðum Mariu Stuart og Mathilde Wesendonck. „Robert Schumann samdi tónlistina við ljóð Mariu en Richard Wagner við ljóð Mathilde. Umfjöllunarefni kvennanna eru ólík og lifðu þær á ólíkum tímum en eiga það þó sameiginlegt að hafa báðar verið fullar af ástríðu og þrótti þó hvorug hafi náð að lifa í frelsi,“ segir Steinunn Birna. Ljóðin verða túlkuð af Auði Gunnarsdóttur sópransöngkonu og Láru Stefánsdóttur dansara við píanóleik Snorra Sigfúsar Birgissonar. Um leikmynd og búninga sér Ásta Guðmundsdóttir.
Viðamesti viðburður komandi starfsárs er Valkyrjan eftir Richard Wagner sem flutt er í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listahátíð í Reykjavík í Eldborg Hörpu 25. og 27. febrúar 2021. Um er að ræða viðsetta tónleikauppfærslu þar sem myndbandshönnun Tals Rosner leikur stórt hlutverk í umgjörðinni og kemur í stað hefðbundinnar leikmyndar. Viðburðurinn var upphaflega settur á dagskrá í vor, en var frestað. Af þeim sökum tók Eva Ollikainen hljómsveitarstjóri við tónsprotanum af Alexander Vedernikov. „Við erum samt svo ótrúlega lánsöm að flestir söngvararnir geta verið í verkefninu áfram þó uppfærslan frestist um tæpt ár,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að örfáar breytingar verði þó. Þannig taki Iréne Theorin við hlutverki Brünnhilde af Christine Goerke og Kristinn Sigmundsson við hlutverki Hunding af Stefani Kocán. „Sem er ákveðið lán í óláni, því Kristinn var alltaf mitt fyrsta val en hann gat vegna anna ekki verið með í vor. Vegna annarra skuldbindinga getur Ólafur Kjartan Sigurðarson því miður ekki lengur sungið Wotan, sem var mikið tilhlökkunarefni,“ segir Steinunn Birna. Spurð hvort ekki sé streituvaldandi að eiga eftir að manna eitt aðalhlutverkanna fimm mánuðum fyrir flutning svarar Steinunn Birna að hún sé ýmsu vön.
„Kollegi minn á Írlandi bauð mér eitt sinn á frumsýningu á Aidu í óperuhúsinu sem hann stýrði. Meðan við snæddum hádegismat á frumsýningardag fékk hann þær upplýsingar að söngvaranir sem syngja áttu aðalhlutverkin tvö, þ.e. Aidu og Radamès, hefðu forfallast. Það voru allir ræstir út til þess að hringja í umboðsmenn og kollega út um alla Evrópu til að finna söngvara sem stokkið gætu inn í hlutverkin með svona stuttum fyrirvara og það tókst. Fyrst þetta var hægt þá er allt hægt,“ segir Steinunn Birna kímin.
Aðspurð segir Steinunn Birna ekkert launungarmál að sökum þess hversu dýrt listform óperan er þá sé ekki gerlegt að setja upp viðamiklar klassískar óperusýningar meðan fjölda- og fjarlægðartakmarkanir eru ríkjandi, enda þurfi góða sætanýtingu til að láta sýningar standa undir sér. „Útfærslan á Valkyrjunni er þannig að við munum geta sveigt okkur að aðstæðum allt eftir því hvar við erum stödd í þessum faraldri þegar að sýningunum kemur. Mér finnst til vinnandi að þurfa ekki að slá hana af eða fresta,“ segir Steinunn Birna og bendir á að uppfærslan á Valkyrjunni hafi ávallt verið hugsuð sem liður í því að fagna 40 ára starfsafmæli Íslensku óperunnar.
„Íslenska óperan var formlega stofnuð 3. október árið 1980 og í venjulegu árferði hefðum við fagnað því með veglegri afmælisveislu, en við þurfum auðvitað að laga okkur að aðstæðum,“ segir Steinunn Birna og bendir á að einn liður í að fagna afmælinu sé verkefni sem nefnist Óperuminning, en þar er um að ræða röð stuttra myndbanda á samfélagsmiðlum og vef Íslensku óperunnar sem hefur göngu sína á afmælisdaginn, það er í dag laugardag.
„Í myndböndunum rifja viðmælendur upp óperuminningu sem er þeim mikilvæg og hefur mótað þeirra viðhorf til listformsins,“ segir Steinunn Birna og bendir á að viðmælendur séu listamenn úr ýmsum geirum og víða að. „Fæstir þeirra sem við leituðum til eru tengdir óperulistforminu í hugum fólks, sem verður athyglisvert fyrir marga en þarna hafa komið fram margar heillandi sögur,“ segir Steinunn Birna og bendir á að Níels Th. Girerd, sýningar- og verkefnastjóri, eigi heiðurinn af vinnslu myndbandanna.
Að lokum er ekki úr vegi að spyrja Steinunni Birnu, sem fylgist vel með alþjóðlegu listasenunni, hvort og hvaða áhrif hún telji að heimsfaraldurinn muni hafa á nálgun þeirra stjórnenda sem veljast til að stjórna listastofnunum á heimsvísu. „Það er greinilegt að þeir eiginleikar sem hingað til hafa oft verið í fyrirrúmi, svo sem sjarmi, sjálfstraust og stundum sjálfhverfa eru að víkja fyrir kröfunni um hæfni, hógværð og heilindi. Þessi þróun er eitt af því jákvæða sem er að koma út úr þessu öllu saman. Samtímis eru að opnast fleiri tækifæri fyrir kvenstjórnendur í listaheiminum, mögulega þar sem þeim er eðlislægt að nálgast aðra af samhygð sem er líklega sá eiginleiki sem er mikilvægastur á þessum tímum sem við erum að upplifa og það verður vonandi varanleg þróun,“ segir Steinunn Birna að lokum.
Viðtalið við Steinunni Birnu birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 1. október.