Ljóst er að Borgarleikhúsið getur ekki endurfrumsýnt sýninguna Níu líf í fyrirsjáanlegri framtíð. Hertar samkomutakmarkanir taka gildi á miðnætti í kvöld en ekkert breytist í starfsemi leikhúsanna. Samkomutakmörk í leikhúsunum miðast við 100 manna sóttvarnahólf og grímuskyldu.
Sýningin Níu líf, sem fjallar um æviskeið tónlistarmannsins Bubba Morthens, var frumsýnd í febrúar síðastliðnum en vegna kórónuveirunnar og samkomutakmarkana þurfti að fresta frekari sýningum. Síðar meir var ráðgert að endurfrumsýna sýninguna 13. ágúst síðastliðinn en vegna hertra samkomutakmarkana var endurfrumsýningunni frestað.
Nú er útlit fyrir að sýningin verði hreinlega að bíða betri tíma því margir koma að uppsetningu hennar, þar á meðal 20 manna kór.
Brynhildur Guðjónsdóttir borgarleikhússtjóri segir að þau haldi áfram að einbeita sér að sýningum á minni sviðum leikhússins. Um helgina var leikritið Útlendingurinn – morðgáta frumsýnt og samstarfsverkefnið Er ég mamma mín? einnig. Í september var verkið Oleanna, með Hilmi Snæ Guðnasyni og Völu Kristínu Eiríksdóttur í aðalhlutverkum, frumsýnt. Aðeins er sýnt fyrir tæplega hálfum sal en 80 komast í annan salinn og um 100 í hinn.