Forsetadóttirin fyrrverandi Chelsea Clinton segist ekki hafa talað við dóttur núverandi forseta Bandaríkjanna, Ivönku Trump, í fjögur ár. Clinton og Trump voru vinkonur en þegar foreldrar þeirra fóru í framboð slitnaði upp úr vinskap þeirra.
„Ég hef ekki talað við hana síðan árið 2016,“ sagði Clinton afdráttarlaust þegar spjallþáttastjórnandinn Andy Cohen spurði hvort þær væru í einhverju sambandi. Clinton sagðist ekki vilja vera vinkona einhvers sem ætti þátt í því sem stjórn Trumps stendur fyrir.
Clinton og Trump voru vinkonur áður en foreldrar þeirra Hillary Clinton og Donald Trump kepptu um forsetaembætti Bandaríkjanna fyrir fjórum árum. Þær sögðust báðar ætla að vera vinkonur eftir kosningabaráttuna hvernig sem úrslitin færu en svo fór þó ekki.
„Við vorum í sambandi í upphafi kosningabaráttunnar,“ sagði Clinton en sagði það síðan hafa verið mjög erfitt vegna alls þess sem Trump hefði sagt og gert.