Kenzo Takada, stofnandi japanska tískuvörumerkisins Kenzo, er látinn úr COVID-19. Takada var 81 árs þegar hann lést á sjúkrahúsi í París, höfuðborg Frakklands.
Takada, sem var þekktur fyrir litrík og blómleg mynstur, var fyrsti japanski hönnuðurinn sem vakti athygli í tískuheiminum í París. Takada settist að í Frakklandi á sjöunda áratug síðustu aldar.
Talsmaður Takada tilkynnti dauðsfall hans og sagði að Takada hefði aldrei hætt að fagna tískunni og listinni að lifa. Anne Hidalgom, bæjarstjóri í París, heiðraði Takada í færslu á Twitter og sagði hann hafa verið gífurlegum hæfileikum gæddan.
„Hann gaf litum og ljósi þeirra sess í tísku. París syrgir nú einn sona sinna.“
Takada fæddist árið 1939 í Osaka, þriðju stærstu borg Japans. Hann sigldi svo til Frakklands árið 1965 og settist að í París. Takada stofnaði í kjölfarið alþjóðlegt vörumerki sem hann nefndi í höfuðið á sjálfum sér, Kenzo, og kom á fót herralínu árið 1983 og síðar á níunda áratugnum tískulínunum Kenzo Jeans og Kenzo Jungle. Hann seldi fatamerkið sitt svo til samsteypunnar LVHM árið 1993 og lét af störfum innan tískuheimsins sex árum síðar.