Staðfest var í dag að Hæstiréttur Bandaríkjanna ætli sér ekki að fjalla um höfundarréttarmál sem höfðað var á hendur rokkhljómsveitinni Led Zeppelin vegna mögulegs stuldar á hinu fræga upphafsriffi lagsins, sem heyrst hefur í mörgum gítarbúðum. Er því staðfest að Jimmy Page og Robert Plant teljast höfundar þess.
Í frétt BBC um málið kemur fram að hljómsveitin hafi verið kærð árið 2014 af hljómsveitinni Spirit, sem vildi meina að upphafsstef Stairway to Heaven hefði verið fengið „að láni“ úr hennar lagi, Taurus.
Led Zeppelin vann málið árið 2016, en því var áfrýjað árið 2018. Áfrýjunardómstóll staðfesti dóm undirréttar fyrr á þessu ári, og neitun Hæstaréttar nú þýðir að því er endanlega lokið. Tónlistarbransinn hafði fylgst vel með málinu, enda var mikið undir. Áætlað er að Stairway to Heaven hafi þénað um 3,4 milljónir bandaríkjadala á því fimm ára tímabili sem réttarhöldin náðu yfir.