Leikstjórinn Patty Jenkins varar við því að ferðir í kvikmyndahús gætu heyrt sögunni til eftir heimsfaraldurinn. Frumsýningu nýrrar ofurhetjukvikmyndar hennar hefur verið frestað þrisvar sinnum í heimsfaraldrinum.
Jenkins er á meðal þeirra leikstjóra í Hollywood sem hafa biðlað til bandarískra yfirvalda að létta kvikmyndahúsum róðurinn í faraldrinum.
Fjöldi kvikmyndahúsa í Bretlandi róa nú lífróður vegna þess hve mörgum frumsýningum hefur verið frestað. Í vikunni hvatti Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fólk til þess að fara í kvikmyndahús.
„Ef við lokum, þá verður ekki aftur snúið. Við gætum tapað kvikmyndaferðum að eilífu,“ sagði Jenkins í viðtalivið fréttastofu Reuters í vikunni.
Kvikmyndahús í öllum heiminum eiga í miklum fjárhagsörðuleikum vegna samkomutakmarkana auk þess sem fáar kvikmyndir eru nú frumsýndar í kvikmyndahúsum. Framleiðsla á kvikmyndum hefur tafist um allan heim og útgáfu þeirra frestað. Liðna helgi var gefið út að frumsýningu James Bond kvikmyndarinnar, No Time To Die, hafi verið frestað fram til 2021.
Bandaríkin eru stærsti markaðurinn í kvikmyndaheiminum í dag með tilliti til hagnaðar af miðasölu. Ekki langt á eftir er Kína.
Jenkins varaði við því að víðtækar lokanir kvikmyndahúsa gætu leitt af sér að kvikmyndaver í Hollywood myndu hætta að fjárfesta í kvikmyndum fyrir kvikmyndahús og snúið sér að streymisveitum í meira mæli.
„Þetta gæti orðið eins og það varð í tónlistargeiranum. Þar sem heill iðnaður gæti hrunið til grunna vegna þess að þú býrð til eitthvað sem er ekki arðsamt,“ sagði Jenkins.
Ofurhetjukvikmynd Jenkins, Wonder Woman 1984, átti upphaflega að koma í kvikmyndahús í júní síðastliðinn. Nú er gert ráð fyrir að hún verði frumsýnd á jóladag.