Í dag eru áttatíu ár liðin frá því að John Lennon fæddist í Liverpool árið 1940. Tónsmíðar hans með Bítlunum og síðar þegar hann var á eigin vegum hafa fyrir löngu tryggt Lennon sess sem einn fremsti dægurlagahöfundur 20. aldarinnar.
Lennon samdi með meðhöfundi sínum Paul McCartney um 180 lög, þó að framlag þeirra væri mismikið eftir hverju lagi. Þar á meðal eru ódauðleg listaverk á borð við A Day in the Life, I am the Walrus og Strawberry Fields Forever, játningar eins og I am a Loser og Help!, og lög sem ekki bara fönguðu tíðarandann heldur ýttu einnig upptökutækni þess tíma lengra fram á við og ruddu brautina fyrir tónlistarmenn síðari tíma, samanber lagið Tomorrow Never Knows.
Lennon hélt áfram lagasmíðum sínum eftir að Bítlarnir slitu samstarfi sínu, en hann gaf út sjö sólóplötur á árunum milli 1970 og 1980, og má þar einnig finna sumar af mestu dægurlagaperlum síðustu aldar, lög eins og Working Class Hero, Jealous Guy og (Just Like) Starting Over, sem kom út á Double Fantasy, síðustu plötunni sem John náði að taka upp fyrir andlát sitt árið 1980.
Frægasta lag Lennons er þó án nokkurs vafa Imagine, sem kom út á samnefndri plötu árið 1971, en þar bað John áheyrandann að ímynda sér heim án eigna, trúarbragða, eða nokkurs þess sem gæti gefið mannfólkinu ástæðu til þess að deila og drepa hvert annað.
Lagið er um margt lýsandi fyrir þá baráttu fyrir friði sem John og síðari eiginkona hans, Yoko Ono, tókust á hendur, en sú barátta átti sér ýmsar birtingarmyndir. Árið 1969 nýttu hjónin sér athyglina sem brúðkaup þeirra gaf til þess að mótmæla Víetnamstríðinu með því að liggja uppi í rúmi á hóteli, bjóða fjölmiðlum til sín og ræða við gesti og gangandi. Í leiðinni samdi John lagið Give Peace a Chance, mótmælalag, sem hefur yljað baráttufólki fyrir friði (og því að fá handritin heim) um hjartarætur í rúm fimmtíu ár.
Tveimur árum síðar, eða um jólin 1971, vöktu hjónin aftur athygli, að þessu sinni fyrir að kaupa auglýsingaskilti í tólf stórborgum þar sem stóð í svörtu letri á hvítum bakgrunni að stríð væru á enda ef fólk vildi. Þetta athæfi vakti mikla athygli, þótt einhverjir teldu friðarboðskapinn ekkert nema auglýsingabrellu til þess að vekja athygli á jólasmáskífu Johns og Yoko, Happy XMas (War is Over). Þá hafði barátta þeirra þau áhrif að bandarísk yfirvöld reyndu um hríð að vísa John úr landi, en hann hafði þá flust til New York.
„Það var ósk Yoko Ono að súlan risi í Reykjavík þar sem Ísland er friðsamt, herlaust land, staðsett mitt á milli Norður Ameríku og Evrópu. Verkið er í formi „óskabrunns“ þar sem grafið er á orðin „Hugsa sér frið“ á 24 tungumálum. Upp úr brunninum stígur ljóssúla sem er saman sett úr fimmtán geislum sem sameinast í einu sterku ljósi.
Verkið er nátengt öðru listaverki Yoko Ono; Óskatré (e. Wish Tree) frá 1996. Yoko Ono býður fólki að skrifa persónulegar óskir um frið og hengja á greinar þar til gerðra trjáa sem komið er fyrir á völdum stöðum í heiminum, til dæmis í húsakynnum Listasafns Reykjavíkur ár hvert í tengslum við tendrun Friðarsúlunnar. Óskirnar telja nú yfir eina milljón en þeim er safnað saman og komið fyrir í Friðarsúlunnar. Ljósgeisli súlunnar lýsir svo á táknrænan hátt óskum fólks frá öllum heimshornum upp í himinhvolfið, hvatningarljós friðar og samstöðu,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.