Tónlistarkonan Bríet gaf út sína fyrstu plötu á miðnætti föstudaginn 10. október. Á plötunni eru níu lög og verma þau nú efstu níu sætin á lista yfir vinsælustu lög á Íslandi í dag á Spotify. Topplistinn er uppfærður daglega en lagið Rólegur kúreki hefur ekki haggast úr fyrsta sætinu frá því á sunnudag.
Þess má geta að bæði voru lagið „Rólegur kúreki“ og platan frumflutt á K100 í síðustu viku, áður en þau komu út.
Þótt aðeins sé rúm vika frá því platan kom út hefur henni verið streymt tugþúsund sinnum á streymisveitunni og verið lofuð í hástert á samfélagsmiðlum. Það kann að skjóta skökku við að þetta sé fyrsta plata Bríetar en hefur hún gefið út mörg vinsæl lög á síðustu árum.