Stundum þarf að skrifa svona grein

Ryuichi Sakamoto kom fram á frábærum tónleikum í Hörpu á …
Ryuichi Sakamoto kom fram á frábærum tónleikum í Hörpu á Sónar árið 2013 ásamt Taylor Deupree. Eggert Jóhannesson

„Af hverju ertu að skrifa um async?“ spurði viðmælandi minn nokkuð hissa þegar ég bar upp erindið. Að spyrja hann út í þátttöku sína á einni bestu tilraunaplötu síðustu ára sem japanski meistarinn Ryuichi Sakamoto gaf út fyrir þremur árum. „Af því bara, stundum þarf bara skrifa svona greinar,“ var svarið. Hver viðmælandinn er kemur í ljós við lestur greinarinnar.

Líklega hefur þú aldrei heyrt um async enda er heimur tilraunakenndrar raftónlistar ekki fyrir alla. Sakamoto er hinsvegar vel þekktur og hefur gert smelli og stef sem allir ættu að kannast við.  

Það getur verið ágætt að leyfa tónlist að gerjast aðeins svo hægt sé að sjá hvað er raunverulega gott og mun standast tímans tönn. async er afbragðs dæmi um það. Platan var gerð þegar Sakamoto var að ná sér upp úr erfiðum veikindum en hann hafði fengið krabbamein í hálsinn sem honum tókst að vinna bug á árið 2015. Verkið er því að miklu leyti mótað af þeirri reynslu. Hugleiðingar um lífið og dauðann.

async kom út árið 2017 og fékk fínar viðtökur gagnrýnenda. …
async kom út árið 2017 og fékk fínar viðtökur gagnrýnenda. Besta plata ársins hjá framúrstefnutónlistartímaritinu FACT. Titillinn vísar til ósamræmis. Snyrtilegur hversdagsleiki er rifinn úr samhengi á umslaginu.

Íslandstengingar 

Þessa sögu þekkti ég ekki þegar ég hlustaði fyrst á plötuna en samt sem áður tengdi ég þriðja lag plötunnar „solari“ samstundis við „Dánarfregnir og jarðafarir“ Jóns Múla sem ætti að vera inngróið í sál allra Íslendinga og beintengja þá við hugleiðingar um dauðann. Það eru einhver líkindi í laglínunni og stemningunni sem tengdi lögin samstundis í huganum.

Árið eftir útgáfu async var gefið út safn af endurútgáfum af lögunum á plötunni ASYNC - REMODELS. Þar gerði Jóhann heitinn Jóhannsson einmitt frábæra útgáfu af „solari“. Hvort hann hafi valið lagið vegna líkindanna er spurning sem líklega verður ekki svarað. 

Þetta er ekki eina Íslandstengingin sem er að finna á async. Þegar platan er um það bil hálfnuð byrjar lagið „halfmoon“ sem hefst á lestri rithöfundarins Paul Bowles á kaflabroti úr bók sinni The Sheltering Sky frá árinu 1949 þar sem tilvistarpælingar eru meginþemað. Sakamoto hafði einmitt gert tónlistina í samnefndri kvikmynd. Á eftir Bowles taka svo við raddir sem lesa brotið á ýmsum tungumálum og undir ómar lágstemmdur hljóðheimur Sakamotos. 

Þegar hlustandinn hefur marinerast um stund í þessum ómi af tungumálum sem eru flestum líklega óskiljanleg heyrist skyndilega í kunnuglegri röddu fara með orðin „En við vitum ekki hvenær við deyjum...“. Nú er ég líklega búinn að spilla fyrir flestum þetta skemmtilega óvænta augnablik en það verður að hafa það. Þarna er rithöfundurinn og listamaðurinn Andri Snær Magnason mættur og les upp texta Bowles. 

„En við vitum ekki hvenær við deyjum. Þess vegna fer okkur að finnast lífið vera óþrjótandi brunnur. Samt gerist allt aðeins nokkrum sinnum, í örfá skipti meira að segja. Hversu oft muntu rifja upp sérstakt síðdegi bernsku þinnar? Síðdegi sem er svo samofið veröld þinni að þú getur vart hugsað þér lífið án þess. Kannski fjórum sinnum eða fimm sinnum, jafnvel ekki svo oft. Hversu oft muntu sjá fullan mána rísa á himni? Kannski tuttugu sinnum. Samt virðist allt óþrjótandi.

Rithöfundurinn Andri Snær Magnasonsem kemur við sögu á plötunni heldur …
Rithöfundurinn Andri Snær Magnasonsem kemur við sögu á plötunni heldur mikið upp á Sakamoto. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar það var orðið óumflýjanlegt að skella í grein til að vekja athygli á snilldinni á async varð ekki hjá því komist að heyra í Andra Snæ um hvernig þetta samstarf kom til. Aðdragandinn var sá að Sakamoto hafði komið hingað til lands og tekið viðtal við Andra Snæ um umhverfismál á vegum japansks tímarits. Í eftirmála umhverfisslyssins í Fukushima þar sem kjarnorkuslys varð í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju árið 2011 hefur Sakamoto verið ákafur aðgerðasinni í umhverfismálum. Síðan þá hafa þeir haldið sambandi og gjarnan talað um samvinnu. Í raun er ekki mikið meira um það að segja annað en að lesturinn var tekinn upp í stúdíóinu hjá Helga Hrafni Jónssyni og Tinu Dico á Seltjarnarnesi. 

„En ég held mikið upp á Sakamoto og nota hann í kvikmyndagerð minni og líka þegar ég þarf að mýkja hausinn fyrir skrif. Bæði þessa plötu og önnur verk eftir hann. Þetta er mjög fínt efni þegar maður þarf að losa á milli heilahvela og allt það sem þarf að gerast til að komast í gír,“ segir Andri Snær í samtali við mbl.is. Það hefur haldið áfram að einhverju leyti og um síðustu helgi sá japanski meistarinn um tónlistina í TED fyrirlestri rithöfundarins um tímann og vatnið sem ég hvet alla til að kíkja á.

Ryuichi Sakamoto er fæddur árið 1952 og sló í gegn …
Ryuichi Sakamoto er fæddur árið 1952 og sló í gegn með Yellow Magic Orchestra á áttunda áratugnum en sveitin gerði smelli sem náðu hátt á vestrænum vinsældarlistum. Síðan hefur hann verið einn vinsælasti tónlistarmaður Japana. Ljósmynd/KAB America

Hvað sem Íslandstengingum líður er einhver galdur á plötunni sem ég er viss um að eigi eftir að skapa henni sess á meðal bestu verka Sakamoto. Bakgrunnur hans er fjölbreyttur en eftir að hafa slegið í gegn með Yellow Magic Orchestra á síðari hluta áttunda áratugarins sneri hann sér að kvikmyndatónlist og óhætt er að segja að hann hafi sigrað þann heim líka. Verðlauna dálkurinn hans á wikipediu er býsna tilkomumikill. Óskarsverðlaun, BAFTA, Golden Globe, Emmy og Grammy. Þetta er allt þarna í bunkum.

Við erum sum sé með þennan brautryðjanda í elektrónískri tónlist sem er með fullkomið vald á útsetningarvinnu og hugmyndafræðinni á bak við tónlist sem stemningu. Hafi einhver nokkurn tíma verið með svarta beltið í músík þá er það okkar maður. Eftir að hafa gengið í gegnum allt sem fylgir því að greinast og takast á við krabbamein fer hann svo í gera async en þá höfðu liðið átta ár frá síðustu plötu hans undir eigin nafni. Í viðtölum hefur hann talað um að veikindin hafi skýrt sýn hans á hvernig tónlist það væri sem hann langaði til að gera. 

Eitt af því var að nota hljóð sem hann langaði sjálfan til að heyra. Til að ná því fram gekk hann um götur New York borgar þar sem hann býr og safnaði hljóðum sem honum þótti áhugaverð og vann þau áfram í hljóðveri sínu. Þessum hljóðbanka er svo dreift um plötuna af nákvæmni og smekkvísi.

Naumhyggjuleg elektróníkin er í aðalhlutverki á async, bæði í uppbyggingu á hrynjanda en líka í notkun á  hljóðgervlum og þar er Sakamoto á heimavelli. Þeir sem hafa prufað að búa til hljóð á slíkum tækjum vita að það er hægara sagt en gert. Það sem kann að hljóma einfalt í framkvæmd á sér gjarnan töluverðan aðdraganda þar sem leitin að rétta hljóðinu getur verið tímafrek og frústrerandi. 

Niðurstaðan er að hljóðheimurinn á async með ólíkindum tær og einhvernveginn réttur. Það er eins og hann hafi alltaf verið til en á sama tíma er hann mjög nútímalegur. Hljóðgervlar og hefðbundin hljóðfæri blandast vel saman. Japönsk hljóðfæri og píanó í fullkominni sátt við framtíðarlegan rafhljóminn. Stundum er stór saga á bak við það sem í fyrstu hljómar einfalt. Til að mynda í laginu „Zure“ þar sem Sakamoto notaði píanó sem hafði verið bjargað neðansjávar eftir flóðið 2011. Hugmyndin var að nýta fegurðina í bjöguninni á hljómi píanósins sem hafði orðið til af náttúrunnar völdum.  

Í stað þess að búa til tónlist sem er einungis falleg og í einhverjum skilningi fullkomin, sem hann er auðvitað fullfær um að gera, var farin leið þar sem fegurðin er innan um tilraunakenndari, erfiðari og ómstríðari kafla. Hugmyndin er þó eitt og framkvæmdin annað og hún gengur algerlega upp.

Eitt af grundvallarhugtökunum í japanskri fagurfræði er að sjá fegurðina í því sem er ófullkomið og því sem hrörnar. Einfaldleiki og fágun án þess að krafa sé gerð um fullkomnun. Ekki er þörf á að kafa djúpt í japanska menningu til að finna þessi stef og þau eru víða á plötunni. Í raun má segja að Sakamoto sjálfur kjarni hugmyndina með gerð plötunnar þar sem hann er sjálfur tekinn að eldast, hrörna og veikjast. Það er eitthvað alveg ótrúlega fallegt við að taka þetta skref á þessu augnabliki í ferlinum og skila því svona rakleitt í samskeytin. Fullkomin plata fyrir haustið.  

Ef allt gengur upp ættu hlustendur að vera komnir á …
Ef allt gengur upp ættu hlustendur að vera komnir á þennan stað í huganum þegar „garden", sem er síðasta lag plötunnar, klárast. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka