Leikkonan Felicity Huffman er búin að skila allri samfélagsvinnu sem henni var gert að inna af hendi. Hún hefur sömuleiðis afplánað sína fangelsisvist og greitt skuld sína sem hún var dæmd til að greiða eftir háskólasvindlsmálið svokallaða.
Huffman er því laus allra mála og getur haldið áfram með líf sitt að nýju.
Huffman hlaut tveggja vikna fangelsisdóm og var gert að inna af hendi 250 tíma af samfélagsvinnu. Hún hefur nú þegar sótt um að fá vegabréfið sitt aftur þó að erfitt sé að ferðast á tímum kórónuveirunnar.
Auk þess sem heimsfaraldur geisar þá eru ekki öll ríki sem vilja taka á móti dæmdum glæpamönnum eins og Huffman. Huffman getur til að mynda ekki brugðið sér yfir landamærin til Kanada.