Fyrstu dagar leikkonunnar Lori Loughlin á bak við lás og slá hafa ekki verið frábærir. Loughlin er sögð hafa farið í góðu andlegu ástandi inn í fangelsið en fyrstu dagarnir hafi verið henni mjög erfiðir. Loughlin afplánar nú tveggja mánaða fangelsisdóm sem hún fékk fyrir að hafa greitt háar upphæðir til að koma dætrum sínum inn í góðan háskóla.
„Lori fór sterk í fangelsið, hún hélt fast í trúna og stuðning fjölskyldunnar, en fyrstu dagarnir voru niðurdrepandi,“ sagði heimildarmaður Us Weekly um málið. Hann segir að hún hafi reynt að vera hugrökk og hugsa um hversu gott það verði þegar hún er búin að afplána dóm sinn en hræðslan hafi náð tökum á henni.
„Þetta eru bara tveir mánuðir en hún kvíðir þeim. Henni líður eins og eitthvað muni fara úrskeiðis í fangelsinu eða að vist hennar þar muni dragast á langinn,“ sagði heimildarmaðurinn.
Loughlin hóf afplánun sína á föstudaginn síðasta, 30. október, í Dublin-fangelsinu í Victorville í Kaliforníu. Á þeim tíma voru ekki mörg kórónuveirusmit innan veggja fangelsisins. Samkvæmt heimildum Us Weekly vonast hún til að fá að fara heim fyrir jólin, en miðað við tveggja mánaða dóm hennar ætti hún ekki að losna fyrr en 30. desember næstkomandi.
Hún gæti losnað og farið í stofufangelsi ef kórónuveirusmit fara úr böndunum í fangelsinu en fordæmi er fyrir því að fangar sem afplána dóma fyrir minniháttar brot fái að ljúka afplánun heima ef hópsmit blossar upp innan veggja fangelsisins.