Upphafið að endalokunum hjá þýsku leikkonunni Romy Schneider var þegar sonur hennar, David Christopher, lést með voveiflegum hætti þegar hann var að reyna að klifra yfir gaddagirðingu árið 1981. Slagæð í lærinu brast og drengnum, sem var aðeins fjórtán ára, blæddi út.
Hermt er að Schneider hafi drukkið ótæpilega eftir slysið og tíu mánuðum síðar var hún öll, 43 ára. Banamein hennar var hjartaáfall. Haft er eftir fjölskylduvini að hún hafi ekki drukkið um þær mundir en orsök hjartaáfallsins hafi verið nýrnaaðgerð sem Schneider gekkst undir nokkrum mánuðum áður. Í öllu falli þá brast móðurhjartað.
Hún lét eftir sig dótturina Söruh Magdalenu sem hún átti með seinni eiginmanni sínum og fyrrverandi einkaritara, Daniel Biasini. Sarah Magdalena fetaði í fótspor móður sinnar og vinnur við leiklist.
Schneider fæddist árið 1938 og fór að leika í kvikmyndum í Þýskalandi strax á unglingsaldri. Næsta aldarfjórðunginn var hún ein skærasta kvikmyndastjarna Evrópu, jafnvíg á þýsku og frönsku, auk þess sem hún drap niður fæti í Hollywood um miðjan sjöunda áratuginn. Lék meðal annars í Hvað er títt Kisulóra? með Woody Allen, sem einnig skrifaði handritið, Peter Sellers og Peter O’Toole.
Schneider var einnig virk í baráttunni fyrir mannréttindum og ein kvennanna sem birtust á forsíðu þýska blaðsins Stern árið 1971 undir yfirskriftinni: „Við höfum látið rjúfa þungun.“ Það var harðbannað þá.
Önnur fræg leikkona sem fór alltof snemma var hin bandaríska Jean Seberg sem naut umtalsverðrar lýðhylli á sjöunda áratugnum, bæði í Frakklandi og Hollywood. Hún var líka róttæk og studdi baráttu mannréttindasamtaka og pólitískra hreyfinga á borð við Black Panther-flokkinn sem varð til þess að sjálfur J. Edgar Hoover, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), gægðist inn í líf hennar.
FBI lagðist á Seberg af fullum þunga sem varð til þess að enginn í Hollywood þorði að ráða hana til starfa. Var þeim orðrómi meðal annars dreift árið 1970 að Seberg gengi ekki með barn bónda síns, Frakkans Romains Garys, heldur blökkumannaleiðtogans Raymonds Hewitts. Seberg ól barnið fyrir tímann en missti það tveimur dögum síðar. Hún fann sig knúna til að hafa kistuna opna við útförina svo allir gætu séð skjannahvítan hörundslit barnsins.
Seberg var mest í Frakklandi eftir þetta. Hún hvarf í lok ágúst 1979 og var gerð að henni leit, að beiðni þáverandi sambýlismanns hennar, sem fullyrti að hún væri í sjálfsvígshugleiðingum. Seberg fannst ekki fyrr en níu dögum síðar, vafin inn í teppi í aftursæti bifreiðar sinnar, nálægt heimili hennar í París. Hún var látin. Lögregla taldi yfirgnæfandi líkur á sjálfsvígi en Seberg skildi eftir miða handa ungum syni sínum: „Fyrirgefðu mér. Ég get ekki lengur lifað með þessum taugum.“ Hún var fertug. Romain Gary lýsti opinberlega ábyrgð á hendur FBI.
Nánar er fjallað um Romy Schneider, Jean Seberg og fleiri frægar leikkonur sem féllu frá langt fyrir aldur fram í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.