Leikkonan Lori Loughlin var grátgjörn fyrstu nóttina í fangelsinu en herti upp hugann næsta dag og er staðráðin í að komast í gegnum þetta að sögn náins vinar.
Loughlin afplánar nú tveggja mánaða fangelsisdóm sem hún hlaut fyrir að greiða háa fjárupphæð til þess að koma dætrum sínum inn í góðan háskóla. Hún hóf afplánunina 30. október síðastliðinn.
„Hún hefur ekki lent í neinum vandræðum. Enginn hefur verið með vesen við hana. Það leggur hana enginn í einelti. Fangaverðirnir koma ekki öðruvísi fram við hana,“ sagði heimildarmaður People um málið.
Hann segir hana hafa grátið fyrstu nóttina en hún hafi fljótlega hert upp hugann.
Loughlin og eiginmaður hennar Mossimo Giannulli voru ákærð á síðasta ári í háskólamálinu svokallaða. Þau voru sökuð um að hafa greitt 500 þúsund bandaríkjadali til Rick Singer og Key Worldwide Foundation fyrir fölsun á upplýsingum um dætur þeirra Oliviu Jade og Isabellu Rose.
Hjónin neituðu bæði sök til að byrja með en á þessu ári játuðu þau sök sína. Í ágúst voru þau dæmd til fangelsisvistar, gert að greiða sekt og inna af hendi samfélagsvinnu. Loughlin fékk tveggja mánaða dóm, 150 þúsund dollara sekt og þarf að inna af hendi 150 klukkustundir af samfélagsvinnu. Giannulli fékk fimm mánaða dóm, 250 þúsund dollara sekt og var gert að inna af hendi 250 klukkustundir af samfélagsvinnu.
Giannulli hefur afplánun sína í dag, 19. nóvember.