Mikil sorg ríkir nú á heimili Vilhjálms Bretaprins og Katrínar hertogaynju eftir að hundurinn Lupo féll frá. Lupo hafði verið í fjölskyldunni í níu ár.
Fjölskyldan tilkynnti örlög Lupos á Instagram í gær og sagði frá því að hundurinn hefði haldið á vit feðra sinna helgina áður. „Við munum sakna hans svo mikið,“ skrifuðu Katrín og Vilhjálmur.
James Middleton, bróðir Katrínar, minntist einnig Lupos í færslu á Instagram. „Það getur ekkert búið þig undir að missa hund. Fyrir ykkur sem hafið aldrei átt hund getur verið erfitt að skilja missinn. En þið sem hafið elskað hund vitið sannleikann: hundur er ekki bara gæludýr, hundur er hluti af fjölskyldunni, besti vinurinn, tryggur félagi, kennari og sálfræðingur,“ skrifaði Middleton.