Sinfóníuhljómsveit Íslands og Daníel Bjarnason hafa verið tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir hljómdisk sinn, Concurrence, í flokknum besti hljómsveitarflutningur (e. best orchestral performance).
Á diskinum flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands ný verk undir stjórn Daníels Bjarnasonar eftir fjögur íslensk tónskáld, þau Önnu Þorvaldsdóttur, Hauk Tómasson, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Pál Ragnar Pálsson. Einleikarar með hljómsveitinni eru Sæunn Þorsteinsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson.
Diskurinn er annar í röðinni af þremur í samstarfi Sinfóníunnar og bandarísku útgáfunnar Sono Luminus, þar sem hljómsveitin flytur alls 14 ný íslensk hljómsveitarverk undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Occurence, sem er lokadiskur þeirrar útgáfuraðar, er væntanlegur í janúar 2021.
Tímaritið The New York Times valdi Concurrence sem eina af athyglisverðurstu klassísku útgáfum ársins 2019 og bandaríska útvarpsstöðin NPR valdi hann sömuleiðis sem einn af tíu bestu útgáfum ársins. Í umsögn þeirra segir meðal annars: „Eyríkið Ísland er, þrátt fyrir smæð sína, risi á sviði klassískrar tónlistar.“
Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur einu sinni áður verið tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir besta hljómsveitarflutning, árið 2009.
Fimm hljómdiskar eru tilnefndir til Gammy-verðlauna í þessum flokki, og meðal annarra tilnefninga má nefna Fílharmóníusveitina í Los Angeles og Sinfóníuhljómsveitina í San Francisco.