Leikkonan Lori Loughlin er sögð vera búin að eignast nokkra vini í fangelsinu. Þá er einnig sagt að aðrir fangar séu ánægðir með veru hennar í fangelsinu því þá sé passað enn betur upp á að kórónuveirusmit komi ekki upp þar.
Loughlin afplánar nú tveggja mánaða fangelsisdóm vegna þáttar síns í háskólasvindlsmálinu svokallaða. Hún hefur setið inni í rúmar þrjár vikur.
„Lori gengur ágætlega og er búin að eignast nokkra vini. Hún hangir með hóp og heldur sig svo til hlés,“ sagði heimildarmaður UsWeekly um málið. Hann bætti við að hún mætti alltaf í guðþjónustur í fangelsinu og legðist reglulega á bæn.
Loughlin situr inni í ríkisfangelsinu í Dublin í Kaliforníu og eru hinir fangarnir ánægðir með veru hennar þar. „Hinar konurnar eru ánægðar með veru Lori því yfirmennirnir taka kórónuveiruna mun alvarlegar þegar það er þekkt manneskja í fangelsinu. Það væri hræðilegt fyrir orðsporið ef Lori myndi smitast af veirunni og verða alvarlega veik,“ sagði heimildarmaðurinn.
Eiginmaður Loughlin er líka kominn bak við lás og slá en hann afplánar nú fimm mánaða dóm.