Karl Bretaprins og Kamilla hertogaynja hafa látið loka fyrir athugasemdir við færslur sínar á Twitter. Hjónin halda úti aðgöngum á öllum helstu samfélagsmiðlum og hafa þeim borist ljótar athugasemdir á öllum miðlum síðustu vikurnar.
Athugasemdirnar koma í kjölfar þáttanna The Crown á Netflix en þar eru þau, og þá sérstaklega Karl, ekki sýnd í jákvæðu ljósi.
Auðvelt er að stýra því hverjir geta svarað tístum á Twitter, en hægt er að breyta stillingunum þannig að aðeins þeir sem maður fylgir á miðlinum geti svarað tístunum. Karl og Kamilla hafa nú nýtt sér þann möguleika.
Sagt var frá því vikunni að Karli og Kamillu hefði borist fjöldi ljótra athugasemda við færslu þeirra á Instagram. Þau hafa þó ekki nýtt sér stillingarnar á Instagram sem loka fyrir athugasemdir þar.