„Maðurinn sem síðar sveik John“

Seint um kvöld þennan dag fyrir 40 árum skaut ungur maður vopnaður skammbyssu John Lennon fjórum sinnum í bakið. Lennon var að koma heim eftir vinnu í upptökuveri ásamt eiginkonu sinni, Yoko Ono. 

Morðinginn var ekki langt undan því lögregla handtók þann þar sem hann las bók og beið þess að vera handtekinn fyrir utan Dakota-bygginguna í New York. 

Lennon var fluttur með hraða á sjúkrahús en átti ekki möguleika á að lifa af þrátt fyrir að vera gefið mikið magn af blóði að sögn læknis sem ræddi við fréttamenn þetta afdrifaríka kvöld fyrir 40 árum. 

Hjónin Yoko Ono og John Lennon en þessi mynd er …
Hjónin Yoko Ono og John Lennon en þessi mynd er tekin 17. maí 1971 í Cannes. AFP

AFP fréttastofan sendi frá sér stórfrétt þetta kvöld – „Bítillinn fyrrverandi, John Lennon, var myrtur fyrir framan heimili sitt í New York.“

Í kjölfarið fylgdi flóðbylgja frétta um þennan sennilega þekktasta söngvara heims sem var aðeins fertugur að aldri þegar hann lést. 

Mark Chapman, sem var 25 ára gamall á þessum tíma, kom frá Hawaii og hafði fengið Lennon til að árita nýjustu plötu breska tónlistarmannsins, Double Fantasy, fyrr um daginn eða þegar Lennon yfirgaf heimili sitt.

„Ég sá myndina þar sem hann veitti eiginhandarritunina. Hún var sýnd aftur og aftur í sjónvarpi,“ skrifaði Yoko Ono aðdáendum þeirra hjóna mánuði síðar í auglýsingu sem var birt í öllum helstu fjölmiðlum Bandaríkjanna þann dag.

„Einhvern veginn var það erfiðara fyrir mig að horfa á þessa mynd heldur myndina af honum látnum. John var að flýta sér þetta síðdegi. Hann vildi ekki veita eigináritun en gerði það engu að síður á meðan maðurinn fylgdist með honum. Maðurinn sem síðar sveik John.“

Reiddist Lennon fyrir að leggja nafn Guðs við hégóma

Nokkrum árum síðan sagði Chapman, sem er Lútherstrúar, við fréttamenn sem hann ræddi við í fangaklefa sínum, að hann hafi verið Lennon reiður fyrir að nefna Guð á nafn. Að hann tryði ekki á Guð. Hann tryði aðeins á sig sjálfan ogYoko og hann tryði ekki á Bítlana.Lennon hafði hæðst að Guði og sagt að Bítlarnir væru vinsælli en Jesús. Þessi ummæli Lennons hefðu einnig skapraunað honum. 

AFP

Chapman var úrskurðaður sakhæfur og dæmdur í lífstíðarfangelsi og hann er enn á bak við lás og slá þrátt fyrir að hafa ítrekað reynt að fá lausn. Chapman hefur óskað 11 sinnum eftir reynslulausn og sú tólfta verður tekin fyrir árið 2022. Hingað til hefur hann alltaf fengið synjun. 

Ronald Reagan, sem hafði nýverið verið kjörinn forseti Bandaríkjanna, sagði morðið skelfilegan harmleik og þúsundir komu saman fyrir utan Dakota-bygginguna þar sem Lennon bjó ásamt Ono og syni þeirra, Sean. 

Yoko Ono og John Lennon árið 1969.
Yoko Ono og John Lennon árið 1969. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ono greindi frá því að ekki yrði um opinbera útför að ræða. Þess í stað sagði hún aðdáendum sem sungu fyrir utan Dakota-bygginguna að þeir skyldu mæta í fyrirlestrarsal í Central Park næsta sunnudag til að minnast eiginmanns hennar. 

Þann dag, 14. desember 1980 minntust 200 þúsund manns Lennons í New York og slökkt var á útsendingu allra útvarpsstöðva borgarinnar í 10 mínútur. Víðsvegar um Bandaríkin söfnuðust tugþúsundir saman í görðum, torgum, bílastæðum og leikhúsum. Jafnvel í salnum Red Rocks í Klettafjöllunum þar sem Bítlarnir höfðu leikið árið 1964. Milljónir jarðarbúa bættust í hópinn og minntust tónlistarmannsins. 

Í Moskvu, þar sem plötur Bítlanna höfðu verið bannaðar og upptökur þeirra gengu kaupum og sölum á svarta markaðnum, var Lennons minnst dögum saman. Endaði það með því að lögreglan fjarlægði hundruð ungmenna sem komu saman við háskóla borgarinnar með myndir af Lennon. Svipað var uppi á teningnum í Prag enda andrúmsloftið í Austur-Evrópu annað en það er í dag, 40 árum síðar.  

Mark David Chapman.
Mark David Chapman. AFP

Í frétt AFP frá þessum tíma kom fram að fara þurfi aftur til hörmulegra dauðdaga John Kennedy eða Martin Luther King á sjöunda áratugnum til að sjá svipuð viðbrögð almennings við andláti frægrar manneskju. 

Í Bretlandi var sorgin nánast áþreifanleg, ekki síst í heimaborg Lennons,Liverpool. Þar mátti til að mynda heyra 20 þúsund sameinast í söng á minningartónleikum um tónlistarmanninn og var það lagið þekkta Give Peace a Chance sem þar ómaði. Fólk grét og það leið yfir aðdáendur á minningartónleikunum. „JohnLennon er ekki dáinn. Svo lengi sem tónlist hans lifir þá deyr hann ekki,“ sagði einn þeirra sem kom fram á tónleikunum. 

Bítlarnir árið 1966: Paul McCartney, Ringo Starr, George Harrison og …
Bítlarnir árið 1966: Paul McCartney, Ringo Starr, George Harrison og John Lennon á tónleikum í Tókýó. AFP

Nú áratugum eftir andlát Lennons þá lifir minning hans og hlutir tengdir honum rata enn á uppboð. Til að mynda var píanó, sem hann samdi Imagine á, selt á 2,45 milljónir evra, sem svarar til 375 milljóna króna á núverandi gengi, í London árið 2000. Árið 2015 var gítar sem var eitt sinn í eigu Lennons seldur á 2 milljónir Bandaríkjadala. Hárlokkur fór á 4,4 milljónir króna og sólgleraugu á 23 milljónir króna. 

Einn þeirra sem minnast Lennon í dag er fréttamaður BBC, Tom Brook, sem var fyrsti breski blaðamaðurinn sem var í beinni útsendingu frá staðnum þar sem Lennon var skotinn. 

„Ég bý aðeins fjórum götum frá Dakota – ég fer fram hjá byggingunni nánast hvern dag og þegar ég fer í líkamsræktina á West 63rd Street, sem er hluti húsaþyrpingar þar sem hótelið, sem morðingi Lennons, Mark David Chapman, dvaldi á fyrstu nóttina í New York,“ segir hann á vef BBC.

Brook segir að Lennon hafi enn áhrif á starf hans. Hann hafi starfað sem fréttamaður í yfir 40 ár og gert yfir 3 þúsund fréttir fyrir BBC og tekið viðtöl við flesta af þekktustu einstaklingunum í kvikmyndageiranum. „En það sem allir vilja vita er hvernig það hafi verið fyrir mig um að fjalla um dauða John Lennon.“

Í dag er síðasti dag­ur­inn sem Friðarsúla Yoko Ono í Viðey log­ar fram að vetr­ar­sól­stöðum 21. des­em­ber. Lista­verkið til­einkaði Yoko Ono eig­in­manni sín­um, tón­list­ar­mann­in­um John Lennon. Friðarsúl­an er tendruð á fæðing­ar­degi hans, 9. októ­ber, ár hvert og slökkt á henni 8. des­em­ber, en þá er þess minnst að Johns Lennon var myrt­ur fyr­ir utan heim­ili sitt í New York. Engin breyting verður á þessu í ár. 

Þann 9. október voru 80 ár liðin frá fæðingu Lennons og var fjallað um tónlist hans í Morgunblaðinu og mbl.is þann dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir