Leikkonan Helena Bonham Carter hvetur einhleypar konur til þess að slaka aðeins á og ekki tala sig niður þótt það hafi ekki gengið vel á stefnumótamarkaðnum árið 2020. Hún mælir með því að konur fái sér titrara og þungt teppi í stað faðmlaga.
Leikkonan sem hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlauna og fór með hlutverk í The Crown á Netflix segir árið í ár hafa reynst mörgu einhleypu fólki erfitt.
„Fáið ykkur titrara. Og þungt teppi fyrir faðmlög. Líka, gerið ekkert. Þegar heimurinn er að verða brjálaður, þegar þið eruð í áfalli yfir einhverju, þá er tíminn til að gera ekkert, vera rólegur,“ sagði Bonham Carter í viðtali við Daily Mail.
„Ég á einhleypa vini og ég held að þetta ár hafi verið ótrúlega erfitt,“ segir Bonham Carter sem birtist í auglýsingu fyrir stefnumótaforritið Bumble. Hún segir stefnumótaforritið hafa gert rannsókn og komist að því að einhleypu fólki líði eins og það hafi misst heilt ár af stefnumótamarkaðnum. Leikkonan sagði það algjört bull en um leið mjög skiljanlegt.
Bonham Carter finnst að konur ættu ekki að finna fyrir sektarkennd þó svo að þær hafi ekki leitað nógu mikið að ástinni. „Konur kenna sér oft um en í rauninni hefur þetta verið hryllilegt ár,“ segir Bonham Carter sem mælti auðvitað með því að finna ástina á netinu.
„Ég á vini sem eru orðnir 35 og halda að þeir þurfi mann eða barn en fólk ætti að hætta að stefna að þessum markmiðum. Allir þroskast á mismunandi hraða. Ég er næstum því 55 ára og er enn ekki orðin fullorðin.“
Leikkonan er þó ekki einhleyp. Hún er búin að vera í sambandi við norska rithöfundinn Rye Dag Holmboe í tvö ár en Halmboe er 21 ári yngri en hún. Bonham Carter átti lengi í óvenjulegu sambandi við leikstjórann Tim Burton og á með honum börnin Billy sem er 17 ára og hina 12 ára gömlu Nell.