Kvikmynd fyrir bíónörda

Gary Oldman í hlutverki Herman Mankiewicz í Mank.
Gary Oldman í hlutverki Herman Mankiewicz í Mank.

Nýjasta kvikmynd David Fincher, Mank, er til skoðunar í nýjasta þætti kvikmyndahlaðvarpsins BÍÓ en myndin var gagnrýnd í Morgunblaðinu 10. desember og hlaut tvær og hálfa stjörnu í einkunn. Þótti rýni handritið helsti galli myndarinnar sem fjallar um annan af tveimur handritshöfundum Citizen Kane, Herman Mankiewicz sem kallaður var Mank. 

Gagnrýnandi, Gunnar Ragnarsson, skrifar m.a: „Frásögnin hefst í hröðum takti og er áhorfanda fleygt í miðja hringiðu Hollywood fjórða áratugarins. Nöfn stjarna og valdastólpa líðandi stundar hrynja af vörum persónanna – og fyrirframgefin þekking á þeim virkar sem menningarlegur aðgangseyrir. Svarthvít og lipur kvikmyndataka reynir að fanga áferð og aðdráttarafl gullaldar klassísku Hollywood. Nostalgísk stafræn áran, og meðfylgjandi tilbúin för og blettir í „ræmunni“, er þó eilítið truflandi í tilgerðinni.“

Hér má sjá stiklu kvikmyndarinnar:

Gunnar segir Mank hafa verið minni háttar spámann í veröld draumaverksmiðjunnar og hluta af handritsteymi MGM-stúdíósins. „Í raun er hann nokkuð hefðbundin amerísk hetja – drykkfelldur einfari, sem fer sínar eigin leiðir innan kerfisins. Þykkur skrápur hnyttinna tilsvara dylur aðeins að takmörkuðu leyti eðli réttláta riddarans. Bransinn hefur leikið karlinn grátt en hann liggur fótbrotinn á sjúkrabeði eftir bílslys. 24 ára að aldri hefur undrabarnið Orson Welles lagt útvarp og leikhúsheiminn að fótum sér og fengið frjálsar hendur til að leikstýra sinni fyrstu kvikmynd alfarið eftir eigin höfði. Welles býður Mank að skrifa handritið og er sjúklingnum komið á sveitasveitur þar sem ætlunin er að halda honum frá víni og aðstæður til að skrifa kjörnar. Stiklað er á stóru um tveggja mánaða skriftarferlið en á milli þess bregður frásögnin sér reglulega aftur í tímann til atburða í lífi Manks (en á afar sjálfmeðvitaðan hátt eru þessir kaflar auðkenndir sem „endurlit“ með skjátitlum líkt og mætti finna í kvikmyndahandriti) sem eiga að skýra innblástur og sköpunarsögu að handriti Mankiewicz,“ skrifar Gunnar og að á kaldhæðnislegan máta sé handrit Mank hennar veikasti punktur. „Höfuðsynd þess er að byggja á og viðhalda þeirri alröngu meiningu að Herman Mankiewicz hafi nánast óstuddur staðið að handriti Kane og að Welles hafi viljað snuða hann um viðurkenningu. Þessi hugmynd er reist á frægri grein frá upphafi áttunda áratugarins eftir kvikmyndarýninn Pauline Kael en hún gekk með skrifunum vísvitandi gegn ríkjandi viðhorfi um leikstjórann sem höfund kvikmynda. Síðan þá hefur handrit Borgara Kane verið birt á mörgum mismunandi vinnslustigum þess og þær rannsóknir hafa sýnt fram á með afdrifaríkum hætti að handrit þess var unnið í samstarfi Mankiewicz og Welles með aðkomu Johns Housemans. Mank fer á þennan hátt ranglega með staðreyndir (sem er auðvitað engin nýlunda í bíói) og bætir í safn skáldverka sem sýna persónu Welles í annarlegu ljósi,“ skrifar Gunnar en dóminn í heild má lesa í Morgunblaðinu 10. desember. 

Hér fyrir neðan má finna hlaðvarpsþáttinn þar sem þeir Gunnar, Helgi Snær Sigurðsson og Þóroddur Bjarnason ræða saman um Mank. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar