Fjölmiðlamaðurinn gamalkunni Larry King hefur verið lagður inn á sjúkrahús í Los Angeles í Kaliforníu með kórónuveiruna. Heimildamenn hafa sagt bæði ABC News og CNN, fyrrverandi vinnuveitanda Kings, að hann hafi verið á sjúkrahúsi í um viku, að því er fram kemur í frétt BBC.
Larry King er 87 ára gamall og hefur verið einn þekktasti sjónvarps- og útvarpsmaður heims í áratugi. Þekktastur er hann fyrir viðtalsþætti sína Larry King Live á CNN þar sem hann fékk til sín góða og þekkta gesti; stjórnmálamenn, poppstjörnur, íþróttafólk og aðrar stórstjörnur úr amerísku þjóðlífi.
Á efri árum hefur King svo glímt við ýmsa kvilla, þar á meðal hefur hann fengið hjartaáfall, lungnakrabbamein og sykursýki. Heimildamenn sögðu CNN að „Larry hefur glímt við svo mörg heilsufarsvandamál í gegnum tíðina og hann mun berjast gegn þessu vandamáli eins vel og hann hefur áður gert. Hann er sigurvegari“.