Tónlistarmaðurinn Harry Styles og leikkonan Olivia Wilde eru nýjasta parið í Hollywood. Parið sást haldast í hendur þegar það mætti saman í brúðkaup um síðustu helgi. Wilde leikstýrði Styles í kvikmyndinni Don't Worry Darling síðastliðið haust.
„Þau voru saman í Montecito í Kaliforníu um helgina vegna brúðkaupsins,“ sagði heimildarmaður People. „Þau voru mjög ástúðleg á meðal vina, héldust í hendur og virtust mjög hamingjusöm. Þau hafa verið að hittast í nokkrar vikur.“
Tíu ár eru á milli stjarnanna en Wilde er 36 ára en Styles 26 ára. Á myndum af nýja parinu mátti sjá Wilde í litríkum síðkjól en Styles í jakkafötum. Þau voru bæði með svarta grímu. Þau voru seinna mynduð í Los Angeles með farangur.
Wilde og leikarinn Jason Sudeikis hættu saman í fyrra eftir níu ára samband en saman eiga þau tvö börn.