Ástarsamband tónlistarmannsins Harrys Styles og leikkonunnar Oliviu Wilde kom mörgum á óvart en ekki samstarfsfólki þeirra. Parið vann saman að myndinni Don't Worry Darling og var nokkuð augljóst í tökum að þau væru að stinga saman nefjum.
Styles og Wilde vörðu miklum tíma saman meðan á tökum stóð en auk þess að leika á móti hvort öðru leikstýrði Wilde myndinni. Heimildarmaður People segir þau hafa verið mikið saman á vinnutíma og fyrir utan vinnu. Vinasamband þeirra breyttist fljótlega í ástarsamband og fór aðdáun þeirra hvors á öðru ekki á milli mála. „Í pásum á tökustað gat hann ekki haldið sig frá henni og heimsótti hjólhýsið hennar,“ sagði heimildarmaður.
Wilde, sem hætti með barnsföður sínum Jason Sudeikis fyrir um ári, var mjög spennt að fá tónlistarmanninn Styles til að leika í mynd sinni. „Ég dansaði lítinn sigurdans þegar við heyrðum að Harry væri formlega með í myndinni,“ sagði Wilde í viðtali við desemberútgáfu Vogue.
Styles klæddist kjól á forsíðu Vogue fyrr í vetur. Wilde var þá tilbúin til þess að verja hann fyrir gagnrýnisröddum. Hún kallaði gagnrýnanda Styles lágkúrulegan á Twitter. „Olivia hætti ekki að tala um hversu karlmannlegur hann væri í kjólnum,“ sagði heimildarmaður. „Aftur var það mjög augljóst að hún hafði fallið fyrir honum.“