Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian West og eiginmaður hennar Kanye West eyddu jólunum saman með börnum sínum fjórum þrátt fyrir mikla erfiðleika í hjónabandinu. Í gær var greint frá því að Kardashian West væri að undirbúa skilnað við eiginmann sinn og að þau hefðu verið í hjónabandsráðgjöf.
Greint var frá því að þau hefðu ekki búið saman svo mánuðum skipti og byggju að mestu leyti hvort í sínu lagi. Þó komu erfiðleikarnir í hjónabandinu ekki í veg fyrir að þau gæfu hvort öðru rándýrar jólagjafir.
Samkvæmt heimildum TMZ gaf West eiginkonu sinni fimm nýja 2021 Maybach-jeppa. Kardashian West gaf honum hins vegar nokkur listaverk eftir listamanninn James Turell.
Í gær, miðvikudag, náðust myndir af Kardashian West á leið í heimsókn til ömmu sinnar í Los Angeles og glöggir aðdáendur tóku eftir því að hún var enn með minni giftingarhringinn sinn á baugfingri vinstri handar.