Tónskáldið Hildur Guðnadóttir er Hafnfirðingur ársins 2020. Hildi þarf vart að kynna fyrir lesendum enda vann hún til nánast hverra einustu verðlauna sem tónskáld getur unnið til á liðnu ári. Hildur vann til Óskarsverðlauna fyrir tónlist sína í myndinni Joker, fyrst Íslendinga, og fékk hún sex önnur verðlaun fyrir sama verk, þar á meðal Golden Globe-verðlaun.
Þá fékk Hildur Grammy-verðlaun fyrir tónlist sína í sjónvarpsþáttunum Chernobyl í janúar í fyrra. Hildur var einnig sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskrar og alþjóðlegrar tónlistar í fyrra.
Hildur er fædd og uppalin í Hafnarfirði en býr núna í Berlín ásamt eiginmanni sínum, Sam Slater, og syni þeirra, Kára. Hildur gekk í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði áður en hún lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum við Hamrahlíð.