Grínistinn Hjálmar Örn leikur í nýrri kvikmynd á Snapchat sem heitir Hættulegt #samstarf 2. Um er að ræða sjálfstætt framhald af myndinni Hættulegt #samstarf sem kom út á Snapchat í ágúst og fékk góð viðbrögð.
Myndina gerði Hjálmar í samstarfi við Emil Þór Vigfússon en myndin er sýnd í dag á snapchati Hjálmars (Hjalmarorn110) og verður þar í 24 klukkustundir.
„Fólk má búast við mikilli veislu og ég er ótrúlega peppaður fyrir þessu. Allt getur gerst þar sem þetta er allt tekið upp í tímaröð og því að mörgu að hyggja svo þetta smelli saman,“ segir Hjálmar Örn.
Hættulegt #samstarf 2 fjallar um sömu aðalpersónur og síðast, lögreglumennina Friðbert Böving sem Hjálmar leikur og Eyjólf Waage sem tónlistarmaðurinn Svavar Elliði leikur. Stjórnarmaður í Stéttarfélagi áhrifavalda hverfur og böndin berast fljótt að áhrifavaldinum og markþjálfanum Önnu Báru Laxdal eða hvítvínskonunni sem aðdáendur Hjálmars þekkja vel. Ekki er þó allt sem sýnist og leikar æsast áður en allur sannleikurinn kemur í ljós.
Fólk getur horft á myndina á Snapchat, hjalmarorn110.