Hafþór Júlíus Björnsson kraftlyftingamaður, eða Fjallið eins og hann er kallaður, er kominn með kórónuveiruna. Hann greinir frá því á instagramsíðu sinni að hann hafi byrjað að finna fyrir einkennum á laugardaginn fyrir um viku. Svo fór hann í sýnatöku 19. janúar og fékk þær niðurstöður að hann væri ekki með veiruna.
Í gær fór hann svo aftur í sýnatöku og reyndist vera smitaður. Hann segist hafa verið frekar slappur og legið í rúminu vegna veikinda. Næstu tvær vikur mun hann leggja sig fram um að reyna að ná bata.
„Þetta er ekkert grín. Farið varlega fólk. Ég myndi ekki óska neinum þess að lenda í þessari stöðu. Vonandi verð ég á betri stað bráðum,“ segir Hafþór Júlíus á instagramsíðu sinni.