Í sömu viku og efnisveitan Apple TV+ frumsýndi þættina Losing Alice frumsýndi breska sjónvarpsstöðin ITV þættina Finding Alice. Sturluð staðreynd. Því skal þó til haga haldið að ekkert samhengi er á milli þáttanna enda þótt þeir sem týndu Alice hafi ugglaust verið vongóðir um það.
Raunar má segja að menn hafi fundið Alice áður en þeir týndu henni því Finding Alice var frumsýndur 17. janúar en Losing Alice 22. janúar. Sem gerir málið bara enn flóknara og meira spennandi, ekki satt?
Finding Alice er spédrama með Keeley Hawes, Nigel Havers, Joönnu Lumley og fleirum en Losing Alice er á hinn bóginn tryllir með Ayelet Zurer, Lihi Kornowski og fleirum, þar sem áhorfandinn sogast inn í undirmeðvitund aðalsöguhetjunnar, Alice að nafni. Fróðlegt verður að sjá hvor þátturinn gengur betur í áhorfendur.