Tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson mun svipta hulunni af framlagi Íslands í Eurovision-söngvakeppninni 13. mars næstkomandi.
Lagið verður frumflutt í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV að því er fram kom í hádegisfréttum Rúv í dag.
Daði og Gagnamagnið unnu Söngvakeppni sjónvarpsins á síðasta ári með laginu Think About Things og átti lagið að vera framlag Íslands í Eurovision það ár. Keppninni í Rotterdam var hins vegar aflýst en tekin var ákvörðun um að Daði myndi samt sem áður keppa fyrir hönd Íslands árið 2021. Hann hefur því unnið hörðum höndum síðustu mánuði að því að semja nýtt lag.
Eurovision-söngvakeppnin fer fram í Rotterdam 18., 20. og 22. maí en Daði mun stíga á svið á seinna undankvöldinu hinn 20. maí.