Skynsamt fólk eins og Ariel?

Ariel Pink í spjallþætti Tuckers Carlsons hjá Fox News á …
Ariel Pink í spjallþætti Tuckers Carlsons hjá Fox News á dögunum. Hárið er ekki bleikt og pallíetturnar voru geymdar heima í þetta skiptið. Skjáskot

„Þegar skynsamt fólk á borð við þig er eyðilagt ættum við öll að staldra við,“ sagði þáttastjórnandinn Tucker Carlson fullur samúðar og horfði djúpt í augun á tónlistarmanninum Ariel Pink í þætti sínum á dögunum. Ferill þess síðarnefnda virðist nú á hraðleið í skólpið vegna stuðnings við Donald Trump fyrrum Bandaríkjaforseta, að því er Ariel Pink vill sjálfur meina.

Viðtalið er sérstakt svo ekki sé fastar kveðið. Gæti vel átt sér stað í góðri og gallsúrri Lynch-mynd. 

Carlson er einn vinsælasti þáttastjórnandi í bandarísku kapalsjónvarpi þar sem hann stýrir umræðuþætti um stjórnmál. Hann er yfirlýstur stuðningsmaður Donalds Trumps, fyrrverandi forseta, og hefur komist í klandur fyrir ummæli sem tengjast kynþáttum og jafnrétti. Sem hefur kostað Fox-stöðina þar sem einhverjir auglýsendur hafa ekki viljað tengja nafn sitt við skoðanir sjónvarpsmannsins.

Ariel Pink er hinsvegar langt frá því að vera jafn þekktur í Bandaríkjunum. Neðanjarðartónlistarmaður sem byrjaði að gera tónlist í svefnherberginu sínu af miklum móð í upphafi aldarinnar. Það tók hann hinsvegar langan tíma að ná athygli og þegar það gerðist var það hjá tiltölulega fámennum en býsna kröfuhörðum hópi indí-hlustenda. Þetta er ekki tónlist sem þú heyrir á K-100 eða Bylgjunni og það er á tandurhreinu að Tucker Carlson hefur aldrei hlustað á Before Today, eina af bestu plötum síðasta áratugar.  

Réttu nafni heitir Ariel Pink þó Ariel Rosenberg og líkt margir tónlistarmenn sem ná árangri með list-poppi (art-pop) byrjaði hann í myndlist. Hann ólst að einhverju leyti upp í Beverly Hills en faðir hans mun vera vel þekktur læknir í meltingafærageiranum. Fyrstu upptökur sem vöktu athygli á Ariel Pink voru kasettur sem hann setti saman og dreifði af miklum móð. Magnið er mikið og stefnan í tónlistinni er út og suður. Árið 2010 komst ferillinn almennilega á flug með fyrrnefndri Before Today sem var víða valin ein sú besta á árinu. Þetta var sum sé þegar árslistar skiptu ennþá máli.

Eftir það hefur hann tryggt sér sess sem einn mesti furðufuglinn í bransanum og hefur reglulega látið hafa eftir sér ummæli um konur, kynþætti, samkynhneigða sem hafa vakið úlfúð. Almennt komið sér í vandræði sem hann hefur svo gjarnan státað sig af. Hér segir hann frá því þegar feministi á að hafa sprautað táragasi á hann. Framkoma Ariels gagnvart kærustu sinni á sviði í San Fransisco árið 2017 þar sem einhverskonar glíma fór fram, gekk einnig fram af fólki og gæti ennþá haft eftirmála. Óhófleg eiturlyfjanotkun er líka stef sem er nokkuð augljóst þegar kauði er gúglaður.

Það hefur því lengi verið ljóst að Ariel Pink hefur lengi verið í einhverskonar línudansi með ímynd sína þar sem hann hefur viljandi stuðað fólk og maður hefur tekið honum sem slíkum. Tónlistin hefur líka verið misjöfn að gæðum en það er alveg ljóst að þegar honum tekst vel til er hann algjört séní.

Stöðvið ránið var yfirskrift fundar stuðningsmanna Donalds Trumps þáverandi Bandaríkjaforseta …
Stöðvið ránið var yfirskrift fundar stuðningsmanna Donalds Trumps þáverandi Bandaríkjaforseta þann sjötta janúar. Ariel Pink segist einungis hafa verið á fundinum og hafi verið á hótelherbergi sínu þegar múgur ruddist inn í þinghúsið með skelfilegum afleiðingum. AFP

Það kom því fáum á óvart þegar það birtust myndir af Ariel á „Stop the steal“ fundinum til styrktar Donald Trump í byrjun mánaðarins. Enda hefur hann iðulega lýst yfir stuðningi við Trump á undanförnum árum. Stuðningurinn hefur augljóslega farið illa í hlustendur Ariel Pink og skyldi engan undra þar sem um er að ræða hóp sem er að langmestu leyti andvígur hverskonar rasisma, mismunun og forréttindablindu. Pólítískt rétthugsandi hópur svo ekki sé meira sagt. Í eftirmála áhlaupsins á þingið í byrjun mánaðarins breyttist þessi hneykslun á hegðun sýruprinsins yfir í reiði og hefðbundin aftaka á samfélagsmiðlum fór fram. Hápunkturinn á þessu klandri var þó líklega þegar plötuútgáfan Mexican Summer sagði upp samningum við hann eins og farið er lauslega yfir í viðtalinu við Carlson.    

Annar angi á málinu er líka sá að nú hefur fyrrverandi kærasta Ariels höfðað mál á hendur honum fyrir hegðun hans á meðan sambandinu stóð. Það er nú í einhverskonar meðferð í dómskerfi Kaliforníubúa. Sakargiftir eru að Ariel á að hafa platað hana til að stunda óvarðar samfarir og smitað hana af kynsjúkdómi, dreift af henni nektarmyndum og fyrir glímubrögðin á sviðinu í San Fransisco. Hún var víst 19 ára og hann 38 ára þegar sambandið hófst og þannig eru færð rök fyrir miklu valdaójafnvægi í sambandinu. Ekkert er rætt um þetta í viðtali Carlsons í því samhengi að það gæti tengst uppsögn plötufyrirtækisins. 

Hvernig sem þessu er snúið er áhorfið á viðtalið því afar áhugaverð heimild um þessa stórfurðulegu tíma sem við lifum þar sem ekkert virðist vera of skrýtið til að geta átt sér stað. Það breytir því ekki að ég á samt alltaf eftir að setja Before Today á fóninn annað slagið.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vanræktu hvorki vini þína né vandamenn. Eitthvað í undirvitundinni segir þér að fara varlega í umferðinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Karin Härjegård
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vanræktu hvorki vini þína né vandamenn. Eitthvað í undirvitundinni segir þér að fara varlega í umferðinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Karin Härjegård