Shawn Southwick King, fyrrverandi eiginkona fjölmiðlamannsins Larry King, segir að hann hafi ekki látist af völdum Covid-19 heldur af völdum blóðsýkingar. King lést þann 23. janúar síðastliðinn 87 ára að aldri.
Hann hafði verið lagður inn á Cedars-Sinai spítalann í Los Angeles í byrjun árs vegna kórónuveirunnar. Sjötta eiginkona hans, Julia Alexander, sagði í viðtali við The Washington Post að hann hafi látist úr sjúkdómnum. Sjöunda eiginkona hans Shawn segir hins vegar að hann hafi jafnað sig af sjúkdómnum og látist úr blóðsýkingu.
„Þetta var sýking, þetta var blóðsýking. En hann var loksins tilbúinn til að fara, ég get sagt ykkur það. Hann vildi aldrei deyja, en elsku litli líkaminn hans var bara, hann hafði þolað svo margt og þegar við heyrðum minnst á Covid sukku hjörtu okkar. En hann sigraði það, veistu það, hann sigraði það en það tók sinn toll og hann fékk sýkingu ótengda veirunni og það var það sem gerði útslagið,“ sagði Shawn í viðtali við Entertainment Tonight.
Shawn segir að þau hafi getað talað saman í gegnum myndsímtal á meðan hann lá inni og bað hann hana fyrir drengjunum þeirra. Shawn og King áttu tvo syni, hinn 21 árs gamla Chance og hinn tvítuga Cannon.