Ella Emhoff, stjúpdóttir Kamölu Harris varaforseta Bandaríkjanna, fékk nýlega samning við eina af virtustu módelskrifstofum í heimi, IMG Models. Heimsfrægar fyrirsætur eins og Gisele Bündchen Gigi og Bella Hadid eru einnig með samning við skrifstofuna. Emhoff er dóttir Doug Emhoff, eiginmanns Harris.
Hin 21 árs gamla Emhoff leggur nú stund á textílhönnun við Parsons School of Design í New York-borg. „Þetta hefur ekkert með líkamsbyggingu, stærð eða kyn að gera lengur,“ sagði Ivan Bart forseti IMG Models í viðtali við New York Times.
Hann segist strax hafa tekið eftir henni í forvali demókrata síðastliðið sumar og stuttu seinna hafi IMG Models haft samband við hana.
„Ég var frekar efins þegar allt þetta með IMG Models fór að gerast því þegar ég var yngri hugsaði ég mér aldrei að þetta yrði hluti af lífinu mínu. Sem einhver, eins og svo margar ungar stelpur, sem átti erfitt með sjálfstraustið, er það ógnvænleg tilhugsun að ganga innn í þennan heim sem einblínir bara á þig og líkama þinn,“ sagði Emhoff við New York Times.