Studio Granda hlaut í gær Hönnunarverðlaun Íslands 2020 fyrir verkefni sitt Dranga en Drangar nefnist nýtt gistiheimili byggt á gömlum grunni og staðsett á Snæfellsnesi. Grafíski hönnuðurinn Kristín Þorkelsdóttir hlaut heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og fyrirtækið 66°Norður hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun.
Verðlaunin voru afhent rafrænt að þessu sinni vegna fjöldatakmarkana og var sýnt frá þeim í beinu streymi á netinu. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, afhenti arkitektunum Margréti Harðardóttir og Steve Christer frá Studioi Granda verðlaunin og segir í rökstuðningi dómnefndar í fréttatilkynningu að Drangar séu metnaðarfullt hönnunarverkefni arkitektastofunnar Studio Granda og afar vel heppnuð birtingarmynd aðkallandi viðfangsefnis arkitekta i nútímasamhengi, endurhugsun og endurnýting gamalla bygginga.
„Hér er sérstaklega vel útfærð breyting á gömlu sveitabýli og útihúsum í gistihús fyrir ferðamenn. Veðraðar byggingarnar fá að njóta sín og halda útlitslegu yfirbragði með sterkri vísun í sögu og samhengi, en um leið er heildarmynd staðarins styrkt og efld,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar og að öll efnisútfærsla sé sérlega vönduð og tengi rýmin saman í umlykjandi ramma um lífið innan byggingarinnar. Verkið sé mikilvægt fordæmi og viðmið í ljósi vaxandi fjölda bygginga, ekki síst á landsbyggðinni, sem kalli á endurskilgreiningu og endurbyggingu vegna aldurs og annars konar nýtingar.
Heiðursverðlaunahafinn Kristín Þorkelsdóttir hefur unnið ómetanlegt brautryðjendastarf á sviði grafískrar hönnunar á Íslandi, að mati dómnefndar og var það Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem veitti henni heiðursverðlaunin. Úr rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að verk Kristínar séu þjóðþekkt enda hafi hún hannað þá peningaseðla sem notaðir séu hér á landi, útlit íslenska vegabréfsins og ýmis þjóðþekkt merki sem blasað hafi við Íslendingum í áratugi. „Verk Kristínar eru áferðarfögur og djúp af fróðleik og það sem einkennir vinnubrögðin er alúð og ástríða,“ segir m.a. í umsögn dómnefndar.
Eftir Kristínu liggur umfangsmikið safn verka sem spanna ólík viðfangsefni allt fá auglýsingaefni yfir í ásýndarverkefni, frá bókakápum yfir í peningaseðla, segir í tilkynningu og að mörg verka hennar lifi enn í dag og fólk þekki þau úr daglegu lífi.
Hönnunarfyrirtækið 66°Norður hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og var það Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem veitti eigendum 66°Norður, þeim Bjarneyju Harðardóttur og Helga Rúnari Óskarssyni ásamt hönnunarteymi fyrirtækisins, viðurkenninguna.
Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að vörumerkið hafi þróast í áranna rás og nú sem útivistarfatnaður í hæsta gæðaflokki með sterka tengingu við arfleið fyrirtækisins og í takti við strauma tískunnar.
„Sérstaða 66°Norður er án efa fagmennska sem einkennir vörumerkið og hæfileiki til að lesa í samtímann hvort sem verið er að hanna tæknilegan útivistarfatnað, markaðsefni eða í tilraunakenndu samstarfi við íslenska og erlenda hönnuði.
66°Norður er skýrt dæmi um það þegar góð hönnun er leiðandi afl í vexti og þróun fyrirtækis, en um 15 manns starfa í hönnunarteymi þess.
Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt í fyrsta sinn árið 2014 og varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast. Verðlaunin beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning,“ segir í umsögninni.