Crossfit-stjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur alltaf viljað vera best í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur, en hefur með hækkandi aldri lært að staldra við og njóta augnabliksins, og vera létt. Mesta fyrirmynd hennar í lífinu er amma hennar sáluga. Katrín Tanja ræddi við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í nýjasta instagramþætti sínum, Fimmtán mínútur með framúrskarandi fólki, í gær.
„Ég fæddist með keppnisskap. Hvort sem það var skólinn eða íþróttir eða hvað sem var. Ég vildi vera best í öllu. Það hefur komið mér ótrúlega langt, en í gegnum árin hef ég hægt og rólega áttað mig á því að ég er best ef ég fæ að vera ég. Vera létt. Hlæja með fólkinu mínu. Ég er komin með það mikla reynslu að ég þarf ekki lengur að hafa alltaf kveikt á öllum ljósum. Hér áður fékk ég oft samviskubit ef mér fannst aðrir vera einbeittari en ég,“ segir Katrín frá.
Á síðasta ári segist Katrín hafa tekið skref aftur á bak. „Ég fór að líta inn á við. Vera í núinu. Ég er besta útgáfan af sjálfri mér þegar ég fæ að hlæja og fæ að vera. Þegar ég missi ekki af augnablikum fyrir framan mig því ég er að hafa áhyggjur af fortíðinni eða framtíðinni. Ég kann alveg að fókusera og ég veit hvað ég er að gera. Lykillinn að mínum árangri er að taka hlutunum ekki of alvarlega. Annars fer maður bara að spóla í hausnum á sér,“ segir Katrín og hlær.
Katrín Tanja lýsti því í samtali sínu við Áslaugu Örnu hvernig hún hóf ferilinn í crossfit. „Ég var hætt í fimleikum, hætt í frjálsum og sá Annie Mist vinna Heimsleikana. Ég ákvað að þetta væri það sem ég vildi gera. Ég vissi ekki þarna að ég myndi koma til með að vinna á leikunum, en ég held að það hafi tekið mig sirka þrjár vikur að ákveða að ég ætlaði þangað. Ég keppti á leikunum það sama ár,“ segir Katrín Tanja, en bætir við að sportið hafi vissulega verið yngra og minni samkeppni þar en er nú.
„Ég fór samt inn með keppnishugarfar og langaði að verða best. Og það er náttúrulega eins og þessi íþrótt hafi verið búin til fyrir mig. Í crossfit þarf maður að vinna í öllu, vera góður í öllu, allt er á tíma og alltaf hægt að bæta sig einhvers staðar.“
Það sé ástæða þess að tíu árum seinna vakni hún enn þá spennt fyrir því að æfa sig og verða betri. „Svo lengi sem ég sé fram á að ég geti orðið betri, þá verð ég spennt fyrir því.“
Katrín segir besta ráðið til annarra að læra að vera í núinu. „Áður fannst mér ég alltaf vera að missa af einhverju, var með vinkonum mínum að hugsa um æfingar, með fjölskyldunni en samt stressuð fyrir næsta móti. Hvort sem það er í íþróttum, í lífinu, í samböndum eða starfinu þínu – þá held ég að það sé lykilatriði að tileinka sér að vera þar sem fæturnir eru. Ná að njóta augnabliksins.“
Hún segir auðvelt að hugsa með sér að á morgun ætli maður sér að gera betur. „Ég hef bara uppgötvað það að lífið gerist í núinu. Ef þú gerir það ekki núna, þá ertu ekki að fara að gera það á mánudaginn. Það er bara afsökun!“
Katrín Tanja ræddi einnig um þakklæti, sem hún segir hafa fleytt sér ansi langt. „Ég veit ekki hvenær ég fór að taka eftir því að þakklæti væri svona mikilvægt. Þakklæti fyrir fólkið í kringum mig, vinkonur mínar, fjölskyldu, þjálfarann minn. Mest af öllu fyrri afa minn og ömmu. Amma skrifaði fyrir mig ljóð einu sinni, sem ég hef reynt að tileinka mér í mínu lífi:
Hugsaðu til himins
Með fæturnar á jörðinni
Hjartað á réttum stað
Mundu – Lýstu upp daginn með geislum þakklætis.
Ég segi þetta við sjálfa mig á hverjum einasta degi.“
Lokaspurning Áslaugar var svo á öllu léttari nótum. Hvað tekurðu í bekk? „Ég held að ég eigi svona 95 í dag.“