Hljóðfæraheildsalan Guitar Center afhjúpaði í vikunni glænýtt listaverk eftir Robert Vargas á útvegg verslunar sinnar á Sunset Strip í Hollywood sem sýnir gítarleikarann Eddie Van Halen heitinn í ham með hljóðfæri sitt, hinn goðsagnakennda gítar Frankenstrat.
Sitt sýnist hverjum og enda þótt flestir Van Halen-aðdáendur sem hafa viðrað skoðun sína séu jákvæðir í garð verksins hafa sumir fundið því flest til foráttu. „Ég ann Eddie en þetta líkist honum ekki neitt,“ tísti einn hneykslaður.
Listamanninum barst á hinn bóginn liðstyrkur úr góðri átt en Wolfgang Van Halen, sonur Eddies, svaraði aðdáandanum fullum hálsi.
„Þú ættir að fá þér gleraugu, lagsi. Þú sérð ekki baun. Veggurinn er geggjaður, bókstaflega gallalaus. Ég skil þegar mönnum líkar ekki listaverk en að segja að verkið líkist honum ekki dregur ekki upp gáfulega mynd af þér. Þetta er ekki spurning um smekk, þú hefur beinlínis rangt fyrir þér.“