Leikkonan Katherine Heigl segir að það hafi tekið mikið andlega á hana að hafa verið stimpluð erfið snemma á ferlinum. Heigl fór með hlutverk í þáttunum Grey's Anatomy og komst það orð á hana að það væri erfitt að vinna með henni og hún væri ófagleg.
Heigl opnaði sig í viðtali við Washington Post á dögunum þar sem hún segir að það sé pirrandi að hugsa um þetta. Hún hafi einfaldlega sagt sína skoðun á vinnubrögðum yfirmanna og samstarfsfélaga sinna.
„Ég gæti hafa sagt nokkra hluti sem fólki líkaði ekki, svo var ég stimpluð „vanþakklát“, síðan varð ég „erfið“ og því var breytt í „ófagmannleg“. Hvernig skilgreinir þú erfið? Einhver sem er með skoðun sem þér líkar ekki? Ég er núna 42 ára og þetta rugl pirrar mig,“ sagði Heigl í viðtalinu.
Mannorð hennar mótaðist þegar hún lék í Grey's Anatomy á árunum 2005 til 2010. Hún vann Emmy-verðlaun fyrir túlkun sína á persónunni Izzy Stevens en ákvað að draga sig af tilnefningalistanum árið eftir.
Heigl fer nú með hlutverk í þáttunum Firefly Lane sem lenda á Netflix 3. febrúar næstkomandi.