Leikarinn Dustin Diamond er látinn eftir skammvinna baráttu við krabbamein. Diamond greindi frá því um miðjan janúarmánuð að hann hefði verið greindur með lungnakrabbamein á fjórða stigi eftir að hafa verið lagður inn á sjúkrahús.
Diamond var þekktastur fyrir að hafa farið með hlutverk Samuels „Screech“ Powers í gamanþáttunum Saved by the Bell sem voru í loftinu á árunum 1989 til 1993 og slógu í gegn víða um heim. BBC greinir frá.
Eftir að Diamond var lagður inn á sjúkrahús kom í ljós að hann væri með smáfrumuþekjuvefjarkrabbamein í lungum sem komið var á fjórða stig. Hann undirgekkst lyfjameðferð við meininu fljótlega eftir greiningu en heilsu hans hrakaði mikið síðustu vikuna.