Harry Bretaprins og Associated Newspapers, útgefandi Mail On Sunday og MailOnline, hafa náð sáttum í meiðyrðamáli Harrys gegn útgefandanum. Harry höfðaði mál gegn AN vegna frátta um að hann hefði hunsað breska hermenn eftir að hann steig til hliðar í bresku konungsfjölskyldunni og flutti til Bandaríkjanna.
Fréttirnar birtu Mail On Sunday og MailOnline í október á síðasta ári en þar var sagt að prinsinn hefði ekki verið í sambandi við hermennina síðan hann fór frá Bretlandi í mars.
Mail On Sunday birti afsökunarbeiðni í desember og styrkti góðgerðarsamtök Harry eftir að í ljós kom að Harry hafði í raun verið í samskiptum við Konunglega breska sjóherinn.
Harry, sem var í breska hernum í tíu ár, sagði í máli sínu fyrir breskum dómstólum að hann hefði móðgast persónulega þegar hann las fréttirnar. Hann sagðist leggja sig fram við að styðja við sjóherinn sem og allar herdeildir Bretlands jafnvel þótt hann hafi stigið til hliðar.
Prinsinn og AN komust að samkomulagi ásamt dómaranum Matthew Nicklin í gegnum fjarfundabúnað í dag.
Eiginkona Harrys, Meghan hertogaynja, er enn í málaferlum gegn AN fyrir að prenta hluta úr bréfum hennar til föður síns.