Kínversk leikkona hefur birt á samfélagsmiðlum átakanlegar myndir eftir að hafa farið í fegrunaraðgerð á nefi. Hún varar aðdáendur sína við hættunni sem fylgir fegrunaraðgerðum.
Gao Liu birti myndirnar á Weibo-samfélagsmiðlinum og þar sést að nef hennar er að hluta svart þar sem húðin er dauð. Fylgjendur Gao eru fimm milljónir talsins og greindi hún þeim frá sjálfsvígshugsunum í kjölfar aðgerðarinnar og að þetta hefði kostað hana nokkur hlutverk.
Hún segist hafa talið að þessir fjórir tímar sem aðgerðin tók myndu gera hana enn fallegri. „En ég áttaði mig ekki á að þeir væru upphafið að martröð.“
Fegrunaraðgerðir njóta sífellt meiri vinsælda í Kína en talið er að 15,2 milljónir Kínverja hafi farið í slíkar aðgerðir í fyrra.
Að sögn Gao hafði hún vonast til þess að aðgerðin myndi auðvelda henni að fá hlutverk. Aðgerðin átti að felast í smáaðgerð þar sem brjóski væri bætt við nefbroddinn en þess í stað komst sýking í sárið og þurfti hún að fara í nokkrar aðgerðir í kjölfarið til þess að minnka skaðann.
Gao fór í aðgerðina í október og vegna mistakanna lá hún á sjúkrahúsi í 61 dag. Þetta kostaði hana 400 þúsund júön, rúmlega átta milljónir króna.
Yfirvöld í Guangzhou-borg, þar sem aðgerðin var framkvæmd, rannsaka nú atvikið.