Skuggahlið Mansons dregin fram

Marilyn Manson og Evan Rachel Wood mæta saman í frumsýningarteiti …
Marilyn Manson og Evan Rachel Wood mæta saman í frumsýningarteiti árið 2007. AFP

Um fátt er meira rætt vestanhafs nú en skuggahliðar tónlistarmannsins Marilyns Mansons og því sem lýst er sem hrottalegri meðferð hans á konum. Ímynd hans hefur ávallt verið tengd ofbeldi og kynlífi. Réttu nafni heitir hann Brian Warner en tók upp sviðsnafnið Marilyn Manson sem er vísun í Marilyn Monroe þekktasta kyntákn 20. aldarinnar og Charles Manson sem er að sjálfsögðu alræmdur leiðtogi hóps fjöldamorðingja.   

Það sem virðist hafa verið vel þekkt innan tónlistarbransans í Bandaríkjunum í langan tíma komst í fréttirnar á dögunum þegar fyrrverandi unnusta Warners leikkonan Evan Rachel Wood, sem er þekktust fyrir leik sinn í vísindaskáldskaparþáttunum Westworld, greindi frá ofbeldi sem hann á að hafa beitt hana á meðan sambandinu stóð.

Í Instagram-færslu segir hún frá því að um árabil hafi Warner beitt hana hrottalegu ofbeldi árum saman, að hann sé hættulegur maður sem þurfi að stöðva áður en hann fái tækifæri á að eyðileggja fleiri líf. Sérstaklega kallar hún eftir því að skemmtanaiðnaðurinn sýni ábyrgð og taki af honum það vald sem hann veitir Warner. Þeirri kröfu hefur að einhverju leyti verið svarað þar sem plötufyrirtækið Loma Vista hefur sagt upp samningum við Warner og þá hefur hann verið klipptur út úr sjónvarpsþáttunum American Gods og Creepshow þar sem hann átti að birtast. Á sama tíma og Wood steig fram birtu fjórar aðrar konur ásakanir af svipuðum toga þar sem kynferðisofbeldi, andlegt- og líkamlegt ofbeldi, þvinganir og hótanir koma fyrir.

Súperstjarnan Andkristur

Málið virðist ætla að hrinda af stað formlegri rannsókn á fortíð Warners sem sló í gegn um miðjan tíunda áratuginn. Hann hefur alla tíð spilað inn á að hneyksla fólk og frá fyrsta degi hefur ímyndin verið geirnegld með það fyrir augum. Hér á landi hafa nokkur lög náð vinsældum en ólíklegt er að meðal Íslendingurinn geri sér grein fyrir því hversu fyrirferðarmikil persóna hans er í Bandaríkjunum. Hann hefur komið fram í fjölmörgum bíómyndum, sjónvarpsþáttum og sem gestur á tónlistarupptökum annarra listamanna. Í stuttu máli er þetta þannig að ef Hollywood vantaði einhvern til að túlka hættulegan, sadískan, úrkynjaðan karakter sem ógnaði öllum gildum sem góðu kristilegu fólki standa nærri þá var valið tiltölulega einfalt og veskið hjá Warner bólgnaði. 

Brian Warner eða Marilyn Manson á sviði fyrir tveimur árum …
Brian Warner eða Marilyn Manson á sviði fyrir tveimur árum síðan. AFP

Stíflan brostin

Fólk virðist hafa beðið eftir því að ofbeldishegðun Warnes yrði opinberuð og eftir að stíflan brast hafa frásagnirnar hrannast upp. Gítarleikarinn Wes Borland, sem sjálfur á eftir að svara til saka fyrir hafa verið í þeirri glæpsamlega vondu hljómsveit Limp Bizkit, var um tíma gítarleikari í tónleikasveit Mansons. Hann segir Warner þurfa að horfast í augu við eigin djöfla og að hann hafi orðið vitni að hræðilegri hegðun hans gagnvart ungum stelpum á heimili Warners. Wood var einmitt 18 ára gömul þegur sambandið við Warner hófst en hann var sjálfur 36 ára gamall.

Tónlistarkonan Pheobe Bridgers rifjaði upp heimsókn sína á heimili Warners, þegar hún var sjálf unglingur og Marilyn Manson aðdáandi, á samfélagsmiðlum. Þar segir hún að Warner hafi talað um eitt herbergi hússins sem „nauðgunarherbergið“ (e. rape room). Aðdáunin hafi verið fljót að hverfa þá. Jafnframt segir hún alla í kring um Manson hafa vitað hvað væri í gangi. Útgáfuna, umboðsmenn og hljómsveitarmeðlimi og að það væri aumkunarvert að sjá sama fólk að reyna að hvítþvo sig með fordæmingu á honum nú.

Frásögn Evan Rachel Wood af ofbeldi sem hún sakar Brian …
Frásögn Evan Rachel Wood af ofbeldi sem hún sakar Brian Warner um að hafa beitt hefur undið upp á sig og það fjarar hratt undan honum í Hollywood. AFP

Trent Reznor sem er hálfgerð goðsögn í þessum geira rokksins átti stóran þátt í að koma ferli Marilyn Manson á flug á sínum tíma. Hann hefur lengi reynt að fjarlægja sig frá Warner og hreinlega sagt það sem aðrir hafa ekki þorað að segja. „Hann er illur náungi sem mun troða á hverjum sem er til að ná árangri og fara yfir öll velsæmismörk í leiðinni. Maður sér núna hvernig eiturlyf og áfengi stýra lífi hans. Orðinn einhverskonar dóptrúður,“ lét hann hafa eftir sér fyrir rúmum áratug.     

Warner svaraði ásökunum fólks á samfélagsmiðlum sem hann kallaði skrumskælingu á sannleikanum og fortíðinni og bætti við: „Mín nánu sambönd hafa ávallt byggt á samþykki og verið með fólki sem er á sömu bylgjulengd.“ Sem fyrr segir er ekki ólíklegt að opinber rannsókn fylgi í kjölfarið þar sem stjórnmálamenn í Kaliforníu eru opinberlega farnir að beita sér fyrir því.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir