Sundlaugargestir á Seltjarnarnesi nutu sundferða sinna í vikunni undir milliliðalausara eftirliti sóttvarnayfirvalda en almennt gengur og gerist. Þríeykið sjálft var mætt að passa upp á þau, þó að reyndar hafi þau verið í tvívídd.
Glettnir iðnaðarmenn höfðu stillt upp skilti af Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni, Ölmu Möller landlækni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni í dyr á milli sundlaugarinnar og Félagsheimilis Seltjarnarness, þar sem verið er að taka veislusalinn í gegn með tilheyrandi broti og bramli.
Í stað þess að gestir og syndandi þyrftu að fylgjast með hamförunum inni á félagsheimili fengu þeir því þennan ágæta félagsskap í sundinu og varð öll sóttvarnaleg breytni þeirra að sjálfsögðu þeim mun meira til fyrirmyndar.
Heimsóknin varð einum pottverjanum tilefni til að minna á þá furðu, að Þórólfur sést sjaldan ef nokkurn tíma í lauginni, jafnvel þó að hann búi rétt hjá. Hann er eflaust eitthvað upptekinn, var sammælst um.